Það að lifa MEIRA

Muniði eftir sögunni af hjónunum sem fóru að rífast eftir 50 ára friðsamt hjónaband? Orð óx af orði og loks segir konan, “Hvernig getur þú sagt þetta við mig ég sem hef alltaf gefið þér sporðstykkið, uppáhaldið mitt, öll okkar hjónabandsár? Karlinn svarar, “Sporðstykkið, mér finnst ekkert varið í það en ég hef alltaf gefið þér hausinn sem mér finnst algert sælgæti.”

Þetta á að vera gamansaga en er samt svo hræðilega sorgleg. Fólk sem af misskilinni góðmennsku fer á mis við það sem þeim þykir best í marga áratugi. Misskilning sem auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir ef þau hefðu talað heiðarlega saman fyrr.

Raunveruleg góðmennska

Raunveruleg góðmennska hefði verið að ætla hinu hið besta og vera einlæg varðandi eigin þarfir og mörk. Söguhjónin hafa þvert á móti ætlað hvort öðru að gramsa til sín besta partinn en ekki opnað sig með sína löngun í ákveðinn part af fiskinum. Afleiðingin var sú að þau átu “vonda hlutann” í hálfa öld. Þau voru ekki að lifa MEIRA.

Að lifa meira

Það að tala heiðarlega um hvað það er sem er í lagi og ekki í lagi í samskiptum er gott bæði fyrir þig og aðra í kringum þig. Þetta kallar Brene Brown að lifa MEIRA (e. living BIG): Setja Mörk, tala af Einlægni og sýna Rausn.

Rausnin merkir það að ætla fólki góðan ásetning eða vilja.

Einlægni er að tala af heilindum og heiðarleika líka þegar það er óþægilegt.

Mörk er gríðalega mikilvægt að setja og passa að þau séu í takt við þau gildi sem okkur eru mikilvægust.

Við þolum oft verst það fólk sem ekki virðir mörkin okkar. Fólk sem truflar okkur þegar við erum í flæði í vinnunni. Biður okkur um viðvik þegar við erum undir miklu álagi. Eða tekur efni sem við höfum búið til og notar sem sitt. Í stað þess að trúa því að fólk sé viljandi að vanvirða okkur, tíma okkar eða afurðir er hagnýtara að vera sjálf/ur skýr með hvað sé í lagi. “Ég get því miður ekki hjálpað þér núna.” “Þegar ég er að klára önninna sem kennari þarf ég næði til að einbeita mér.”  Eða “Það efni sem er á heimasíðunni minni má nota til einkanota en ekki dreifa eða selja” og svo framvegis.

Hvað ef fólk er að gera sitt besta?

Ef þú vilt prófa að lifa MEIRA  geturðu spurt þig þessar spurningar:  Hugsaðu um einhverja manneskju sem pirrar þig til dæmis á vinnustaðnum. Gefðu þér næst að viðkomandi sé að gera sitt allra besta miðað við getu, hæfni og aðstæður sínar, einmitt núna. Hvernig breytir það upplifun þinni af aðstæðunum?

Skýrt er vinsemd (óskýrt er óvinsemd)

Það að tala ekki um það sem er í ólagi í samskiptum hvort heldur er vinahóps eða samstarfsfólks er mjög kröftug leið til að eyðileggja tengslin á alveg sama hátt og hjá hjónunum í byrjun. Ef allir aðilar eru að stilla sig til að halda friðinn er ekkert líklegra en að einmitt það moli traustið sem þarf að vera á milli til að tengslin haldist góð.

Það að lifa meira er að vera sjálfum sér trú, setja mörk og ætla fólki hið besta.

Gróði af góðmennsku?

Á aðventu er fólk oft meyrt í hjarta og styður við góð málefni. Það kaupir jólakort af líknarfélögum, leggur pakka undir jólatréð í Kringlunni eða þess háttar. Fáeinum finnst þetta kannski yfirborðslegt og lítils virði. En ykkur sem leggið lykkju á leið ykkar til að gleðja eða styðja við lítilmagnann get ég glatt með því að það er ekki bara fallegt heldur beinlínis gott! Ekki aðeins fyrir þann sem þiggur góðvild ykkar, heldur líka ykkur sjálf. Góðverkin hlýja manni ekki bara um hjartarætur heldur hafa þau líka bein áhrif í formi betri heilsu, bæði andlega og líkamlega.

Góð málefni styrkja þig líka

Það að gefa til góðs málefnis lækkar blóðþrýsting á við lyfjagjöf eða líkamsrækt. Þetta kom fram í tilraun þar sem hópur fólks með of háan blóðþrýsting fékk vikulega fjárhæð sem þau áttu ýmist að nota fyrir sig sjálf eða til að gefa til góðgerðamála að eigin vali. Þau sem gáfu féð mældust með lægri blóðþrýsting en þau sem eyddu því í sig sjálf. Lækkun var mest ef gjöfin hafði persónulega merkingu fyrir gefandann t.d. að gefa til SÁÁ ef þau samtök hafa hjálpað ættingja, eða til Hjartaheilla ef rannsókn þar bjargaði lífi maka. Í annarri rannsókn sprautaði læknir kvefsmiti í nef fólks og ýmist sýndi því góðvild eða var hlutlaus og kuldalegur. Hópurinn sem hafði lækni sem hlustaði og sinnti þeim hlýlega, varð sjaldnar og minna veikur en hinn hópurinn. Þetta sýnir óvænt en góð áhrif vinsemdar á þann sem fyrir henni verður. Vinsemd eða góðvild (compassion) hleypir krafti í ónæmiskerfið og róar fólk niður.

Aðventan

Aðventan er yndisleg en er líka tími anna og álags. Því er sérlega gott að geta deilt því með lesendum að það að gefa sér tíma til að hjálpa einhverjum, eða einfaldlega gefa tíma sinn, til dæmis með því að heimsækja ömmu eða lasinn vin, hefur þau áhrif að þér finnst álagið minnka og þú upplifir minni tímapressu. Þetta er svolítið mikið í hausnum á okkur, ekki satt? Tímagjöf virkar á kollinn eins og líkamsrækt á kroppinn, hún krefst orku en veitir líka orku.

Einlægni virkar

Jæja þá ert þú kæri lesandi kannski að hugsa “aha, nú fer ég og geri góðverk því það er svo gott fyrir mig”, en þá kemur smásnúður því að góðverkin verða að vera einlæg til að þau virki þannig og því betur sem gjörðin hefur persónulegri merkingu. Þannig að vandaðu valið á góðverkinu til að hámarka áhrifin.

Hin yndislega Phoebe Buffay gæti kennt okkur ýmslegt um góðverk

Leyfðu fólki að aðstoða þig

Að lokum. Mörgum sem veikjast finnst erfitt að þiggja aðstoð, finnast þeir vera byrði á öðrum og skömm að því að vera sá sem ekki getur. Ef að þú ert í þeirri aðstöðu, prófaðu að hugsa hvort þú myndir telja eftir þér aðstoðina ef hlutverkin snérust við. Mundu einnig hvað sá sem hjálpar fær mikið út úr því, ekki aðeins góðar tilfinningar heldur einnig beinan heilsufarslegan ávinning. Þannig að þið skulið endilega lofa fólki að hjálpa ykkur, biðja jafnvel um tiltekna aðstoð til að gera fólki það auðveldara. Reynið síðan að deila þeim góðu tilfinningum sem hjálpin vekur hjá hjálparanum, samgleðjast með honum eða henni.  Það er ákveðin góðmennska að leyfa fólk að hjálpa sér því góða fólkið lifir lengur. Þau sem gera góðverk njóta þess, þau sem þiggja njóta og þau sem verða vitni að því fá líka þessi góðu áhrif. Svo hikið ekki við að deila sögum af góðum verkum því það gerir líf okkar allra aðeins betra.

Megið þið vel lifa.

Akranesi

Aðventa 2017

Steinunn Eva Þórðardóttir

(Byggt að mestu á bókinni : The science of compassion eftir Kelly McGonigal)

Þessi pistill birtist fyrst í 49. tbl. Skessuhorns 2017 (6. des.)