Þakklæti bætir líf þitt og annarra

Við erum flest alin upp við góða siði eins og að þakka fyrir sig og vera almennileg við fólk. Þakklæti sem slíkt er einhver hollasta tilfinning sem við finnum fyrir, geðræktarlega séð. Hún er einnig sú tilfinning sem hvað mest hefur verið rannsökuð í því sambandi.

Þakklæti bætir líf þitt og annarra

Það að finna til þakklætis  gerir líf fólks betra og hefur ýmislegt jákvætt í för með sér. Undanfarin ár hefur tíðarandinn snúist svolítið mikið um það erfiða og slæma í lífinu. Fólk hefur verið reitt og viðrað óréttlæti og ójöfnuð sem eðlilega dregur okkur niður. Það er auðvitað þarft og nauðsynlegt að upplifa neikvæðar tilfinningar stundum en það er ekki gott að vera fastur í þeim. Reiði getur verið gagnleg til að vekja athygli á því sem þarf að laga og drífa áfram breytingar, en langvarandi tuð og neikvæðni er hvorki uppbyggileg fyrir viðkomandi eða náunga hans.

Þakklætisæfingar

Margir kannast kannski við þakklætisæfingar sem birtast oft á listum eins og “5 atriði til að vera hamingjusamari”, á vefsíðum eða í blöðum. Dæmigerð þakklætisæfing er að halda dagbók þar sem á hverjum degi eru skrifuð þrjú til fimm atriði sem þú ert sérstaklega þakklát/ur fyrir þann dag.

(Hugsa þú núna snöggvast um eitthvað þrennt sem þú ert þakklát/ur fyrir. …..Vonandi var það auðvelt.)

Næsta dag áttu svo að skrifa aftur, en ekki nota það sama. Þróunin er stundum sú að fólk byrjar á stóru hlutunum í lífinu, eins og lífinu sjálfu, að hafa heilsu og eiga góða að. Þegar lengra líður fer fólk svo að þakka minni hluti, eins og að það sé hætt að rigna eða hvað það var gott með kaffinu í vinnunni. Einnig fer fólk að taka eftir góðum hlutum jafnóðum og þeir gerast yfir daginn og kunna betur að meta þá í rauntíma. Þú áttar þig eflaust á hver þetta stefnir.

Ástundun þakklætis

Það að ástunda þakklæti á þennan hátt færir fólk smásaman nær því að vera í núinu og njóta lífsins betur. Rannsóknir sýna að þessi einfalda æfing, gerð daglega í viku, hefur þau áhrif að fólk verður ánægðara með lífið. Fólk verður bjartsýnna, þunglyndis-einkennum fækkar og fólk lýsir meiri hamingju. Líkamleg heilsa batnar einnig og fólk verður duglegra að hreyfa sig.  Áhrifin vara í allt að 6 mánuði! En ef þú gerir þetta að daglegum vana þá haldast þessi góðu áhrif áfram, þannig að þetta er auðveld og einföld aðferð til að lyfta geðinu, alla daga.

Sælla er að gefa en þiggja?

Nú fara jólin í hönd og við keppumst við að kaupa eða búa til gjafir handa fólkinu okkar. Frasinn “sælla er að gefa en þiggja” er oft tugginn á þessum tímamótum. Er hann sannur? Ég skora á þig að gera athugun þessi jól. Fylgstu með því hvort þér finnst raunverulega betra að fá góða gjöf eða gefa hana. Einnig vil ég hvetja til þess að, auk þess að sýna hefðbundna kurteisi og þakka fyrir þig, þá lofir þú þér að finna almennilega fyrir og upplifa þakklætið. Gefðu því gaum, ekki bara hraðspóla yfir það eins og við höfum tilhneigingu til að gera.

Mín fjölskylda á eina uppáhaldsjólaminningu frá því að sonur minn var 4 ára gamall og upplifði jólin mjög sterkt. Við hvern einasta pakka varð hann ofurglaður, þakkaði þeim sem gaf og hafði á orði, við alla pakkana,: “einmitt það sem mig langaði í!”. Þessi dásamlegu viðbrögð gerðu jólin auðvitað mikið betri fyrir okkur öll sem vorum viðstödd og þessi hressandi minning er oft rifjuð upp í fjölskyldunni.

Þakklæti yfir jólin

Talandi um jólin, þá er fjöldi tækifæra til að æfa sig í þakklæti tengd þeim. Það má skrifa falleg kort eða jólabréf þar sem fólki er þakkað. Klassísku frasarnir “þakka liðið” eða “þakka allt gamalt og gott” eru flottir og segir allt sem segja þarf. Þá má líka útfæra þakklæti á fleiri vegu, t.d. þakka sértækar fyrir ákveðið atvik eða samveru, eða nefna góða eiginleika sem viðtakandi korts eða bréfs býr yfir. Jólabréf í formi annálls gefur þér tilefni til að rifja upp og vera þakklát fyrir góðar minningar ársins.

Lífið er ekki alltaf auðvelt

Eftir jól þarf auðvitað að þakka gjafirnar og svo má vera þakklát/ur inn í sér fyrir að upplifa gleðileg jól. Jafnvel þegar hlutirnir eru ekki svo frábærir má samt finna eitthvað gott í aðstæðunum. Ef þú glímir við veikindi má ef til vill vera þakklát/ur fyrir aðstandendur séu þeir til staðar. Hugsa má hlýlega til hjúkrunarfólksins sem aðstoðar eða jafnvel til lyfjana, án þess að gera lítið úr því hve líðanin getur verið slæm. Stundum er lífið bara ekki auðvelt og það má alveg viðurkenna það líka. Athugið samt að það er hvorki heppilegt fyrir aðra að benda þeim sem þjáist á hve þakklátur hann geti nú verið. Vorkunn hjálpar ekki heldur, sýnið frekar hluttekningu. En meðan við öndum er meira í lagi með okkur en ekki, eins og vitur maður, Jon Kabat-Zinn, orðaði það.

Þakklæti er nátengt hamingjunni

Það að æfa þakklæti felst frekar í að þakka það sem þú hefur í lífinu, “count your blessings” eins og útlendingar segja, heldur en að þakka öðru fólk, þó að það sé gott líka.

Endum pistilinn á spaklegum orðum heimspekingsins Gunnars Hersveins: “Til eru menn sem þakka allt, bæði það sem þeir fá og það sem þeir missa, jafnt gæfu sem ógæfu. Þeir þakka fyrir að hafa fengið að eiga áður en þeir misstu og þeir þakka jafnvel kvölina því hún veitir þeim innsýn, dýpkaði lífsskilning og gerði þá auðmjúka”. Eftirfarandi orð hans ná því vel sem pistill þessi á að tjá: “Þakklæti er nátengt hamingjunni. Sá sem kemur auga á gildi þess sem hann hefur nú þegar, kemst ekki hjá því að nema hamingjuna og þakka lífið”.

Þakka þeim sem lásu

Steinunn Eva

Á aðventu 2017

Rannsóknirnar sem nefndar eru finnast m.a. í greinum eftir Emmons og McCullough (2003), Counting blessings versus burdens og Positive Psychology Progress, eftir Seligman, Steen, Park og Peterson, (2005). Tilvitnanir í Gunnar Hersvein fann ég í dagbókinni Árið mitt 2017. Orð Jon Kabat-Zinn eru í hljóðskrá með núvitundaræfingum, sem byggja einmitt á öndun. Skoðaðu vefsíðu Kartina Mayer ef þér dettur ekkert i hug til að þakka: https://katrinamayer.com/quotes/