Verum 75% jákvæð

Eitt af því sem ég fæ oft að heyra þegar jákvæð sálfræði berst í tal, er að það sé nú óttaleg vitleysa að allt þurfi að vera jákvætt allan tímann. Þegar ég tek undir það dettur samtalið reyndar fljótt upp fyrir.  Kannski af því fólkið átti von á að ég færi að þrasa um þetta. En það er alveg hárrétt að það er ekki æskilegt að vera of jákvæður. Enda er það ekki það sem jákvæð sálfræði gengur út á.

Jákvæð sálfræði er vísindi

Hún er vísindin um hvað gengur vel og virkar vel hjá okkur mannfólki. Niðurstaðan er skiljanlega oft í takt við almenna skynsemi. Eða leiðbeiningar sem hafa fylgt okkur í árþúsundir frá spekingum og jafnvel glænýjum sjálfshjálpargúrúum. Munurinn er bara sá að það sem sálfræðin hefur fram að færa er byggt á rannsóknum. Vísindi byggja á rannsóknum en ekki brjóstviti eða reynslu, þó það fari sem betur fer oft, en alls ekki alltaf, saman.

Heppilegasta hlutfall jákvæðni

Ástæðan fyrir því að það er ekki gott að vera of jákvæð er að þau sem eru alltaf jákvæð og bjartsýn gætu skotið yfir markið. Þau myndu til dæmis ekki leita læknis vegna einkenna, ekki tékka á fallhlífinni áður en þau stökkva og svo framvegs því þetta “verður örugglega allt í lagi”.  Fólk sem er hinsvegar stöðugt neikvætt og svartsýnt myndi líklega ekki fara í flugvél yfirhöfuð. En það að vera hóflega jákvæð og bjartsýn er það sem reynist best. Nánar tiltekið er heppilegasta hlutfallið þegar fólk er þrisvar sinnum oftar jákvætt en neikvætt. Þetta hefur verið mælt í allskonar kringumstæðum hreinlega með því að greina samræður og viðtöl. Þetta hefur verið gert bæði í fyrirtækjum og í sjónvarpi. Þá er talið hve oft fólk segir jákvæða eða neikvæða hluti um íþróttaliðið sem það þjálfar, starfsfólkið sitt, samstarfsfólk eða nemendur. Samhljóma niðurstaða er að þetta tiltekna hlutfall spái velgengni og góðum árangri til dæmis í íþrótt eða viðskiptum. Lægra hlutfall spáir á sama hátt fyrir slæmu gengi og tapi.

Það er mikilvægt að innræta jákvæðni og von hjá börnum.

Það neikvæða hefur meiri vægi

Þegar samtöl hjóna eru greind er hægt að spá með talsverðu öryggi um hve lengi hjónabandið muni vara. Þar er ekki nóg að hafa þrenn jákvæð ummæli á móti einu neikvæðu, heldur er æskilegra að hlutfallið sé fimm á móti einu, telji nú hver fyrir sig. Ef hjón eru nærri hlutfallinu eitt á móti einu eru mestar líkur á að sambandið sé dauðadæmt og eigi stutt eftir. Það að það er ekki nóg að hafa eitt jákvætt á móti einu neikvæðu skýrist af því að það neikvæða hefur meira vægi. Leikarar kannast við það hvernig einn slæmur dómur drepur gleðina af fleiri jákvæðum. Þetta er innbyggt í okkur og hefur stuðlað að afkomu mannskyns en fyrir gott líf hvers einstaklings er betra að gleðjast. Það eru ekki nýjar fréttir. Predikarinn skrifaðir fyrir um 2000 árum: “Og ég lofaði gleðina því að ekkert betra er til fyrir manninn undir sólinni en að eta og drekka og vera glaður” (8:15).

Vonin getur bjargað heilsunni

Margir líta þannig á að það sé það sama að vera raunsær og vera svartsýnn. Það að horfa bjartsýnum augum á framtíðina sé hálfgerður kjánaskapur og draumórar. Það sé best að búast við hinu versta. Læknar höfðu hér áður fyrr miklar áhyggjur af því að vekja vonir hjá sjúklingum. Þeir hafa sem betur ferið áttað sig á því fyrir löngu að án vonar er ólíklegt að fólk geri það sem það þarf til að halda eða ná heilsu.

Ráð mitt er því einfalt eins og oftast: Vertu jákvæð/ur og bjartsýn/n 75% tímans og þér mun farnast vel!

Styrkleikarnir þínir

Þú efast kannski stundum um það en þú hefur í alvörunni marga styrkleika. Nánar tiltekið höfum við öll 24 persónustyrkleika eða mannkosti, samkvæmt VIA kenningunni, sem studd er fjölda rannsókna. Það hvernig þeir raðast og blandast er einstakt fyrir hvert okkar og það sem gerir okkur að okkur sjálfum. Þessir eiginleikar eru alþjóðlegir og vel metnir af ólíkum menningum og trúarhópum. Það sem er kallað auðkennis- eða aðalstyrkleiki er oftast sá sem kemur hæstur út úr prófi sem hægt er að taka frítt á viacharacter.org. Til eru margar fleiri leiðir til að finna styrkleika þína en prófið er góð byrjun ef þú hefur áhuga.

Þinn aðalstyrkleikur bætir lífið

Í ljós hefur komið að við erum langflest blind fyrir okkar eigin aðalstyrkleikum. Trúlega af því að fyrir okkur eru þeir svo sjálfsagðir. Hinsvegar þegar við uppgötvum þá er það bæði skemmtilegt, svolítið eins og að hitta gamlan vin. Líkt og púsl falli á sinn stað. Bara það að bera kennsl á sinn eða sína aðalstyrkleika hefur góð áhrif og margfaldar líkurnar á að við blómstrum í lífinu. Það eru jákvæð tengsl við alla undirþætti blómstrunar. Þetta þýðir fleiri góðar og jákvæðar tilfinningar hjá okkur, sjálfsmyndin er heilbrigðari, fólk upplifir frekar að lífið hafi tilgang, þrautseiga er meiri, við tökum frekar þátt í samfélaginu, náum frekar árangri og erum bjartsýnni (Niemiec, 2018). Ef fólk notar aðalstyrkleikann á nýjan hátt daglega, í viku verða áhrifin enn meiri, líkurnar á blómstrun verða 18 sinnum líklegri. Blómstrun má síðan viðhalda alla ævi með ástundun og áminningu.

Styrkleikarnir þínir eru þarna, þú þarft bara að leita að þeim

Fleiri kostir styrkleikjagreiningar

Styrkleikar gagnast ekki bara okkur sem einstaklingum. Hjónabönd styrkjast ef hjón eru meðvituð um og kunna að meta auðkennisstyrkleika hvors annars. Fólk verður ánægðara á og trúrra sínum vinnustað ef það fær að njóta og nota styrkleikana þar. Yfirmenn mættu taka til athugunar að þegar samskiptin á vinnustað eru með  áherslu á styrkleika frekar en veikleika nær starfsfólkið mikið betri árangri í vinnu og starfsmannavelta minnkar. Þetta má eflaust yfirfæra í þjálfun, skóla og fleiri staði.

Þessi hefur eflaust ríka réttlætiskennd

Styrkleikarnir okkar birtast þegar þörf er á

Heppilegt er að nota styrkleika meðvitað til að hjálpa sér gegnum erfiðleika. Sá skapandi reynir kannski að finna frumlega lausn á því, t.d. í hugstormun, en það hentar skapandi fólki sérlega vel að kasta hugmyndum á milli í hóp. Áhugavert er að þegar virkilega reynir á kemur styrkleikinn oftast betur í ljós. Til dæmis sýnir foreldri sitt rétt andlit frekar þegar barnið er veikt heldur en þegar þau horfa saman á barnaefnið. Frumlega foreldrið gæti þá til dæmis prófað eitthvað nýtt sem bætir líðan þess. Foreldri með húmor slær á létta strengi og gerir lífið þannig ögn bærilegra en sú sem er sterkust í námsást leitar allra upplýsinga um veikindin.

Það er ástæða fyrir því hverjir fara í taugarnar á þér

Að lokum má benda á leið til að finna styrkleikana sína út frá því sem fer í taugarnar á okkur. Ef einhver á vinnustaðnum fer í þínar fínustu, er margt vitlausara en að gera lista yfir efstu og lægstu styrkleika þeirrar persónu. Líkur eru á að sá eða sú hafi þann styrkleika sem þú ert efst/ur í, mjög neðarlega og öfugt. Ef þú þolir ekki að hann gerir upp á milli fólks ert þú líklega með sanngirni sem auðkennisstyrkleika, en hann mælist lágur þar. Það er því aldeilis ekki rétt sem stundum er sagt að fólk pirri okkur því að það sé svo líkt okkur.

Skilningur kemur til bjargar

Bara það að átta sig á orsökunum getur dregið verulega úr ergelsinu. Skilningur eykur þolinmæðina. Það að átta sig líka á hvar styrkleikar þessa “pirrandi” einstaklings liggja getur ekki annað en bætt samskipti ykkar. Þar með batna líðan á vinnustaðnum. Niðurstaðan er að það að tileinka sér styrkleikanálgun gerir fyrst og fremst manni sjálfum gott. Nálgunin er líka framlag til bætts samfélags.

 

Eftirmáli

Styrkleikarnir 24 eru: Þakklæti, fyrirgefning, hógværð, hugrekki, heiðarleiki, þrautseigja, gætni, húmor, dómgreind, víðsýni, lærdómsást, forvitni, liðsheild/liðsmaður, forystuhæfni, sköpunargáfa, staðfesta, dugnaður, lífsorka, ást, góðmennska, félagsgreind, sanngirni, að kunna að meta fegurð og snilld, von og andlegt viðhorf. Merktu þá sem þér finnst vera þínir aðalstyrkleikar.

(Byggt að mestu á Character Strengths Interventions, a field guide for practitioners eftir Ryan M. Niemiec (2018) og vefsíðunni viacharacter.org)

Seig börn

“Þú ert rosaduglegur strákur”, segir tannlæknirinn, “já ég veit” svarar þriggja ára stráklingur rogginn. Þegar heim var komið þurfti að endurtaka söguna af dugnaðinum og amma sagði: “Þú er aldeilis “seigur”,” sem hann spurði hvað merkti og fékk svarið duglegur. Seigur gæti líka verið stytting á þrautseigur sem er náskylt dugnaði en ekki alveg það sama.

Þrautseigja

Þrautseigja er að hafa úthald til að klára hluti, líka erfiða. Það er að seiglast áfram í gegnum leiðinleg verk eða gegnum skólagöngu sem er leiðin að þeirri framtíð sem þú óskar þér en er ekki alveg sú nútíð sem þig langar mest að vera í, svo dæmi séu tekin.

Seigi ömmustrákurinn

Bjartsýni og þrautseigja

Eins og flest í fari okkar er þrautseigja að einhverju leyti meðfædd en það er hægt að hafa áhrif á hana og mikilvægt að börn læri þrautseigju og bjartsýni því það er svo gagnlegt í lífinu. Þeim sem eru bjartsýn gengur betur en próf myndu spá fyrir í skóla, þau taka sig frekar á þegar þau fá skell og eru bæði heilsuhraustari og ánægðari með lífið. Þessir eiginleikar tengjast það að sjá bjart framundan, en von um betri tíð, er að mínu mati lykill að þrautseigju.

Vonleysi eða von

Börn geta lært hvort heldur vonleysi eða von. Lært hjálparleysi er bæði uppskrift að slæmu gengi í skóla og þunglyndi. Því miður er líklegt að börn sem fá of erfið verkefni í skóla læri mjög hratt vonleysi sem kemur þannig fram að þau missa áhuga og hætta að reyna við námið af alvöru. Þetta á auðvitað við um öll verkefni. Ef foreldri gerir of miklar kröfur sem barnið hefur ekki möguleika á að standa undir gerist það sama. Ef kröfurnar eru þannig að barn á “alltaf” eða “aldrei” að gera eitthvað, eru þær óraunsæjar.

Börn eru alveg eins og þau eiga að vera

Börn eru stundum óþekk. Þau taka ekki alltaf til né segja alltaf satt, alveg eins og við fullorðna fólkið. Þau eru ekki fullkomin en eru samt alveg eins og þau eiga að vera, og elsku verð, eins og við. Hitt er líka til að foreldri elski barnið svo ógurlega að það geri of litlar kröfur og hlífi barninu á allan hátt. Ef barnið kvíðir fyrir prófi hringir foreldrið það inn lasið, ef það mætir og gengur illa er það prófið eða kennarinn sem er ómögulegur, því er alltaf skutlað í skólann því það er svo mikið vesen að ganga og svo framvegis. Þrautseigja og sjálfstrú lærist hinsvegar bara við að takast á við hluti og komast yfir erfiðleika.

Að innræta gróskuhugarfar

Það að innræta börnum gróskuhugarfar er ein undirstaðan, fyrst þarf uppalandinn reyndar að tileinka sér það, þannig virkar uppeldi, þú þarft að verða sú fullorðna manneskja sem þú vilt að barnið verði. Þau læra af því hvernig þú ert og hvernig þú tekst á við erfiðleika og mistök. Gróskuhugarfar er meðal annars að horfa á erfiðleika, mistök og gagnrýni með þeim augum að þú getir lært af þeim. Þá tapar þú aldrei, annað hvort tekst þér ætlunin eða þú lærir af mistökunum og getur jafnvel deilt fyndinni sögu. Mundu að hvort sem þú trúir því að þér mistakist eða náir árangri er líklegast að það gangi eftir, eins og haft er eftir Henry Ford.

Merkingarfullt líf er fullt af streitu

Rannsóknir sýna að það fólk sem er undir mesta álagi, finnur fyrir mikilli streitu er á sama tíma það fólk sem er hamingjusamast og finnur mestan tilgang í lífinu. Álagið tengist því að hafa mikið af mikilvægum atriðum í lífinu.

Streitan er ekki hættuleg

Endurskoðun á rannsóknunum sem kenndu okkur að streita væri hættuleg heilsunni hefur sýnt að það er ekki streitan sem slík sem er hættuleg heilsunni heldur viðhorf okkar til hennar.

Þannig er að streituviðbrögð eru fleiri og flóknari en áður var talið. Flestir kannast við ótta-flótta (e.“fight-flight” ) viðbragðið. Sem sagt að fara annað hvort í árásarham eða flýja. Árásarhamur getur verið að bregðast við með reiði og geðvonsku. Flótti gæti lýst sér í afneitun, að horfast ekki í augu við vandamálin, heldur flýja þau til að mynda í óhóflegri líkamsrækt eða tölvuleikjum (sem hvoru tveggja er annars ágætt). Nýrra er ótti-flótti-frjósa (e.“fight-flight-freeze”), þá er kominn þriðji möguleiki sem er að lamast af ótta. Fólk sem hefur upplifað líkamsárásir eða nauðgun segir stundum frá slíkum viðbrögðum. Einnig þegar fólk fær mjög slæmar fréttir af sjúkdómum eða dauða. Þetta eru svolítið yfirdrifin viðbrögð við þessu venjulega hversdagslega stressi og vonandi tengir þú lesandi góður ekki við þau. Þriðja útgáfan er líklegri til að hæfa því, en það er svokallað “áskorunarviðbragð” (e. challenge). Það kemur fram þegar fólk mætir álaginu sem áskorun en ekki sem ógn. Það hefur í för með sér gjörólík líffræðileg viðbrögð, t.d. fer hormónið DHEA  út í blóðið. DHEA hjálpar við viðhald og uppbyggingu líkama, sem er beinlínis gott fyrir heilsuna. Venjuleg daglega streita vekur oftast þetta viðbragð og er því alls ekki til að óttast.

Hvað er þér mikilvægt?

Hugsaðu um hvað það er sem vekur streitu eða áhyggjur dagsdaglega, punktaðu það helst niður.  Til dæmis er það að koma börnunum í skólann á réttum tíma oft eitthvað sem hækkar blóðþrýsting foreldra.

 

 

 

 

 

 Af hverju er það mikilvægt? Svarið er auðvitað undir hverjum og einum komið. Það getur verið að lífsgildi ykkar sé að standa sig vel í lífinu og því mikilvægt að mæta þar sem maður á að vera. Það gæti líka verið að í ykkar huga sé menntun barnsins mikilvæg og þess vegna mikilvægt að það mæti, eða að þið hafið áhyggjur af ímynd fjölskyldunnar: “Hvað ætli fólk segi..?”,  eða ýmislegt annað sem kemur til greina. Málið er að við höfum oftast áhyggjur af því sem skiptir okkur máli, börnin okkar, vinnan, tengslin við fólkið í kringum okkur. Rannsóknir sýna að það fólk sem er undir mesta álaginu og finnur fyrir mikilli streitu er á sama tíma það fólk sem er hamingjusamast og finnur mestan tilgang í lífinu.  Álagið tengist því að hafa mikið af mikilvægum atriðum í lífinu.  Fagnaðu streituviðbrögðum því þau eru leið líkamans til að hjálpa þér að mæta álagi. Aukin hjartsláttur og öndun gefur ekki bara vöðvunum heldur líka heilanum, aukið súrefni, sem hjálpar þér að bæði leysa vandamálin og hlaupa á eftir krakkanum!  

Andaðu djúpt og segðu brosandi : “Ég er svo stressuð/stressaður.” Vitandi að það er gott og hjálplegt.

Ástarhormón og áföll

Loks langar mig að nefna enn eitt streituviðbragð sem er alls ekki slæmt en kemur fram við  mikla streitu eins og þegar hamfarir verða eða dauðsföll. Það nefnist tengslaviðbragð (e. tend and befriend) og lýsir sér í þörf fyrir að vera með fólki, og hjálpa til. Margir kannast við þetta frá sjálfum sér t.d. þegar vinir eða ættingjar verða fyrir sorg, við viljum hitta þau eða færa þeim eithvað sem léttir undir. Eða við heyrum fréttir af viðbrögðum venjulegs fólks við sprengjuárásum eða slysum, þar sem fólk opnar heimili sín fyrir bláókunnugu fólki eða leggur sig í lífshættu við að hjálpa þeim í neyð. Þegar þetta gerist fer hormónið oxýtósín (e. oxitocin) á fullt í líkamanum en það er þekkt sem ástarhormón og hefur meðal annars þau áhrif að styrkja hjartað og fyrirbyggja hjartaáföll.

Samantekt, gagnleg ráð:

  • Skoðaðu gildin þín, hvað er mikilvægt fyrir þig og af hverju? Þegar þú sérð að álagið í lífinu stafar af mikilvægum hlutum verður það ekki ógn heldur áskorun.
  • Ef áhyggjur og álag stafa af lítilvægum hlutum,mæli ég með því að hætta einfaldlega að láta þá stressa sig.  
  • Sýndu það hugrekki að fá aðstoð við verkefnin sem þér finnst þú ekki ráða við eða við að byggja upp sjálfstraustið. Talaðu um vandann, þú ert ekki sú eina eða sá eini sem ert í þessari glímu.
  • Síðast en ekki síst ræktaðu tengslin við fólkið í kringum þig, það er gott á svo margan hátt, það að hafa góð tengl bæði verndar þig og veitir stuðning þegar á þarf að halda.

Halló jólastress!

Bjóðum jólastressið velkomið. Það verður til af því að við viljum skapa ástvinum góðan tíma á jólunum, með vel völdum gjöfum, frábærum mat í hreinu og fallegu umhverfi, ekki satt? Ekkert ógnvænlegt við það. Bara ekki eyða of miklu, það gleður ástvini ykkar ekkert sérstaklega ef að þið farið á hausinn í febrúar …

Byggt að mestu á bókinni The upside of stress eftir Kelly McGonigal