Merkingarfullt líf er fullt af streitu

Rannsóknir sýna að það fólk sem er undir mesta álagi, finnur fyrir mikilli streitu er á sama tíma það fólk sem er hamingjusamast og finnur mestan tilgang í lífinu. Álagið tengist því að hafa mikið af mikilvægum atriðum í lífinu.

Streitan er ekki hættuleg

Endurskoðun á rannsóknunum sem kenndu okkur að streita væri hættuleg heilsunni hefur sýnt að það er ekki streitan sem slík sem er hættuleg heilsunni heldur viðhorf okkar til hennar.

Þannig er að streituviðbrögð eru fleiri og flóknari en áður var talið. Flestir kannast við ótta-flótta (e.“fight-flight” ) viðbragðið. Sem sagt að fara annað hvort í árásarham eða flýja. Árásarhamur getur verið að bregðast við með reiði og geðvonsku. Flótti gæti lýst sér í afneitun, að horfast ekki í augu við vandamálin, heldur flýja þau til að mynda í óhóflegri líkamsrækt eða tölvuleikjum (sem hvoru tveggja er annars ágætt). Nýrra er ótti-flótti-frjósa (e.“fight-flight-freeze”), þá er kominn þriðji möguleiki sem er að lamast af ótta. Fólk sem hefur upplifað líkamsárásir eða nauðgun segir stundum frá slíkum viðbrögðum. Einnig þegar fólk fær mjög slæmar fréttir af sjúkdómum eða dauða. Þetta eru svolítið yfirdrifin viðbrögð við þessu venjulega hversdagslega stressi og vonandi tengir þú lesandi góður ekki við þau. Þriðja útgáfan er líklegri til að hæfa því, en það er svokallað “áskorunarviðbragð” (e. challenge). Það kemur fram þegar fólk mætir álaginu sem áskorun en ekki sem ógn. Það hefur í för með sér gjörólík líffræðileg viðbrögð, t.d. fer hormónið DHEA  út í blóðið. DHEA hjálpar við viðhald og uppbyggingu líkama, sem er beinlínis gott fyrir heilsuna. Venjuleg daglega streita vekur oftast þetta viðbragð og er því alls ekki til að óttast.

Hvað er þér mikilvægt?

Hugsaðu um hvað það er sem vekur streitu eða áhyggjur dagsdaglega, punktaðu það helst niður.  Til dæmis er það að koma börnunum í skólann á réttum tíma oft eitthvað sem hækkar blóðþrýsting foreldra.

 

 

 

 

 

 Af hverju er það mikilvægt? Svarið er auðvitað undir hverjum og einum komið. Það getur verið að lífsgildi ykkar sé að standa sig vel í lífinu og því mikilvægt að mæta þar sem maður á að vera. Það gæti líka verið að í ykkar huga sé menntun barnsins mikilvæg og þess vegna mikilvægt að það mæti, eða að þið hafið áhyggjur af ímynd fjölskyldunnar: “Hvað ætli fólk segi..?”,  eða ýmislegt annað sem kemur til greina. Málið er að við höfum oftast áhyggjur af því sem skiptir okkur máli, börnin okkar, vinnan, tengslin við fólkið í kringum okkur. Rannsóknir sýna að það fólk sem er undir mesta álaginu og finnur fyrir mikilli streitu er á sama tíma það fólk sem er hamingjusamast og finnur mestan tilgang í lífinu.  Álagið tengist því að hafa mikið af mikilvægum atriðum í lífinu.  Fagnaðu streituviðbrögðum því þau eru leið líkamans til að hjálpa þér að mæta álagi. Aukin hjartsláttur og öndun gefur ekki bara vöðvunum heldur líka heilanum, aukið súrefni, sem hjálpar þér að bæði leysa vandamálin og hlaupa á eftir krakkanum!  

Andaðu djúpt og segðu brosandi : “Ég er svo stressuð/stressaður.” Vitandi að það er gott og hjálplegt.

Ástarhormón og áföll

Loks langar mig að nefna enn eitt streituviðbragð sem er alls ekki slæmt en kemur fram við  mikla streitu eins og þegar hamfarir verða eða dauðsföll. Það nefnist tengslaviðbragð (e. tend and befriend) og lýsir sér í þörf fyrir að vera með fólki, og hjálpa til. Margir kannast við þetta frá sjálfum sér t.d. þegar vinir eða ættingjar verða fyrir sorg, við viljum hitta þau eða færa þeim eithvað sem léttir undir. Eða við heyrum fréttir af viðbrögðum venjulegs fólks við sprengjuárásum eða slysum, þar sem fólk opnar heimili sín fyrir bláókunnugu fólki eða leggur sig í lífshættu við að hjálpa þeim í neyð. Þegar þetta gerist fer hormónið oxýtósín (e. oxitocin) á fullt í líkamanum en það er þekkt sem ástarhormón og hefur meðal annars þau áhrif að styrkja hjartað og fyrirbyggja hjartaáföll.

Samantekt, gagnleg ráð:

  • Skoðaðu gildin þín, hvað er mikilvægt fyrir þig og af hverju? Þegar þú sérð að álagið í lífinu stafar af mikilvægum hlutum verður það ekki ógn heldur áskorun.
  • Ef áhyggjur og álag stafa af lítilvægum hlutum,mæli ég með því að hætta einfaldlega að láta þá stressa sig.  
  • Sýndu það hugrekki að fá aðstoð við verkefnin sem þér finnst þú ekki ráða við eða við að byggja upp sjálfstraustið. Talaðu um vandann, þú ert ekki sú eina eða sá eini sem ert í þessari glímu.
  • Síðast en ekki síst ræktaðu tengslin við fólkið í kringum þig, það er gott á svo margan hátt, það að hafa góð tengl bæði verndar þig og veitir stuðning þegar á þarf að halda.

Halló jólastress!

Bjóðum jólastressið velkomið. Það verður til af því að við viljum skapa ástvinum góðan tíma á jólunum, með vel völdum gjöfum, frábærum mat í hreinu og fallegu umhverfi, ekki satt? Ekkert ógnvænlegt við það. Bara ekki eyða of miklu, það gleður ástvini ykkar ekkert sérstaklega ef að þið farið á hausinn í febrúar …

Byggt að mestu á bókinni The upside of stress eftir Kelly McGonigal

Gróði af góðmennsku?

Á aðventu er fólk oft meyrt í hjarta og styður við góð málefni. Það kaupir jólakort af líknarfélögum, leggur pakka undir jólatréð í Kringlunni eða þess háttar. Fáeinum finnst þetta kannski yfirborðslegt og lítils virði. En ykkur sem leggið lykkju á leið ykkar til að gleðja eða styðja við lítilmagnann get ég glatt með því að það er ekki bara fallegt heldur beinlínis gott! Ekki aðeins fyrir þann sem þiggur góðvild ykkar, heldur líka ykkur sjálf. Góðverkin hlýja manni ekki bara um hjartarætur heldur hafa þau líka bein áhrif í formi betri heilsu, bæði andlega og líkamlega.

Góð málefni styrkja þig líka

Það að gefa til góðs málefnis lækkar blóðþrýsting á við lyfjagjöf eða líkamsrækt. Þetta kom fram í tilraun þar sem hópur fólks með of háan blóðþrýsting fékk vikulega fjárhæð sem þau áttu ýmist að nota fyrir sig sjálf eða til að gefa til góðgerðamála að eigin vali. Þau sem gáfu féð mældust með lægri blóðþrýsting en þau sem eyddu því í sig sjálf. Lækkun var mest ef gjöfin hafði persónulega merkingu fyrir gefandann t.d. að gefa til SÁÁ ef þau samtök hafa hjálpað ættingja, eða til Hjartaheilla ef rannsókn þar bjargaði lífi maka. Í annarri rannsókn sprautaði læknir kvefsmiti í nef fólks og ýmist sýndi því góðvild eða var hlutlaus og kuldalegur. Hópurinn sem hafði lækni sem hlustaði og sinnti þeim hlýlega, varð sjaldnar og minna veikur en hinn hópurinn. Þetta sýnir óvænt en góð áhrif vinsemdar á þann sem fyrir henni verður. Vinsemd eða góðvild (compassion) hleypir krafti í ónæmiskerfið og róar fólk niður.

Aðventan

Aðventan er yndisleg en er líka tími anna og álags. Því er sérlega gott að geta deilt því með lesendum að það að gefa sér tíma til að hjálpa einhverjum, eða einfaldlega gefa tíma sinn, til dæmis með því að heimsækja ömmu eða lasinn vin, hefur þau áhrif að þér finnst álagið minnka og þú upplifir minni tímapressu. Þetta er svolítið mikið í hausnum á okkur, ekki satt? Tímagjöf virkar á kollinn eins og líkamsrækt á kroppinn, hún krefst orku en veitir líka orku.

Einlægni virkar

Jæja þá ert þú kæri lesandi kannski að hugsa “aha, nú fer ég og geri góðverk því það er svo gott fyrir mig”, en þá kemur smásnúður því að góðverkin verða að vera einlæg til að þau virki þannig og því betur sem gjörðin hefur persónulegri merkingu. Þannig að vandaðu valið á góðverkinu til að hámarka áhrifin.

Hin yndislega Phoebe Buffay gæti kennt okkur ýmslegt um góðverk

Leyfðu fólki að aðstoða þig

Að lokum. Mörgum sem veikjast finnst erfitt að þiggja aðstoð, finnast þeir vera byrði á öðrum og skömm að því að vera sá sem ekki getur. Ef að þú ert í þeirri aðstöðu, prófaðu að hugsa hvort þú myndir telja eftir þér aðstoðina ef hlutverkin snérust við. Mundu einnig hvað sá sem hjálpar fær mikið út úr því, ekki aðeins góðar tilfinningar heldur einnig beinan heilsufarslegan ávinning. Þannig að þið skulið endilega lofa fólki að hjálpa ykkur, biðja jafnvel um tiltekna aðstoð til að gera fólki það auðveldara. Reynið síðan að deila þeim góðu tilfinningum sem hjálpin vekur hjá hjálparanum, samgleðjast með honum eða henni.  Það er ákveðin góðmennska að leyfa fólk að hjálpa sér því góða fólkið lifir lengur. Þau sem gera góðverk njóta þess, þau sem þiggja njóta og þau sem verða vitni að því fá líka þessi góðu áhrif. Svo hikið ekki við að deila sögum af góðum verkum því það gerir líf okkar allra aðeins betra.

Megið þið vel lifa.

Akranesi

Aðventa 2017

Steinunn Eva Þórðardóttir

(Byggt að mestu á bókinni : The science of compassion eftir Kelly McGonigal)

Þessi pistill birtist fyrst í 49. tbl. Skessuhorns 2017 (6. des.)