Gróði af góðmennsku?

Á aðventu er fólk oft meyrt í hjarta og styður við góð málefni. Það kaupir jólakort af líknarfélögum, leggur pakka undir jólatréð í Kringlunni eða þess háttar. Fáeinum finnst þetta kannski yfirborðslegt og lítils virði. En ykkur sem leggið lykkju á leið ykkar til að gleðja eða styðja við lítilmagnann get ég glatt með því að það er ekki bara fallegt heldur beinlínis gott! Ekki aðeins fyrir þann sem þiggur góðvild ykkar, heldur líka ykkur sjálf. Góðverkin hlýja manni ekki bara um hjartarætur heldur hafa þau líka bein áhrif í formi betri heilsu, bæði andlega og líkamlega.

Góð málefni styrkja þig líka

Það að gefa til góðs málefnis lækkar blóðþrýsting á við lyfjagjöf eða líkamsrækt. Þetta kom fram í tilraun þar sem hópur fólks með of háan blóðþrýsting fékk vikulega fjárhæð sem þau áttu ýmist að nota fyrir sig sjálf eða til að gefa til góðgerðamála að eigin vali. Þau sem gáfu féð mældust með lægri blóðþrýsting en þau sem eyddu því í sig sjálf. Lækkun var mest ef gjöfin hafði persónulega merkingu fyrir gefandann t.d. að gefa til SÁÁ ef þau samtök hafa hjálpað ættingja, eða til Hjartaheilla ef rannsókn þar bjargaði lífi maka. Í annarri rannsókn sprautaði læknir kvefsmiti í nef fólks og ýmist sýndi því góðvild eða var hlutlaus og kuldalegur. Hópurinn sem hafði lækni sem hlustaði og sinnti þeim hlýlega, varð sjaldnar og minna veikur en hinn hópurinn. Þetta sýnir óvænt en góð áhrif vinsemdar á þann sem fyrir henni verður. Vinsemd eða góðvild (compassion) hleypir krafti í ónæmiskerfið og róar fólk niður.

Aðventan

Aðventan er yndisleg en er líka tími anna og álags. Því er sérlega gott að geta deilt því með lesendum að það að gefa sér tíma til að hjálpa einhverjum, eða einfaldlega gefa tíma sinn, til dæmis með því að heimsækja ömmu eða lasinn vin, hefur þau áhrif að þér finnst álagið minnka og þú upplifir minni tímapressu. Þetta er svolítið mikið í hausnum á okkur, ekki satt? Tímagjöf virkar á kollinn eins og líkamsrækt á kroppinn, hún krefst orku en veitir líka orku.

Einlægni virkar

Jæja þá ert þú kæri lesandi kannski að hugsa “aha, nú fer ég og geri góðverk því það er svo gott fyrir mig”, en þá kemur smásnúður því að góðverkin verða að vera einlæg til að þau virki þannig og því betur sem gjörðin hefur persónulegri merkingu. Þannig að vandaðu valið á góðverkinu til að hámarka áhrifin.

Hin yndislega Phoebe Buffay gæti kennt okkur ýmslegt um góðverk

Leyfðu fólki að aðstoða þig

Að lokum. Mörgum sem veikjast finnst erfitt að þiggja aðstoð, finnast þeir vera byrði á öðrum og skömm að því að vera sá sem ekki getur. Ef að þú ert í þeirri aðstöðu, prófaðu að hugsa hvort þú myndir telja eftir þér aðstoðina ef hlutverkin snérust við. Mundu einnig hvað sá sem hjálpar fær mikið út úr því, ekki aðeins góðar tilfinningar heldur einnig beinan heilsufarslegan ávinning. Þannig að þið skulið endilega lofa fólki að hjálpa ykkur, biðja jafnvel um tiltekna aðstoð til að gera fólki það auðveldara. Reynið síðan að deila þeim góðu tilfinningum sem hjálpin vekur hjá hjálparanum, samgleðjast með honum eða henni.  Það er ákveðin góðmennska að leyfa fólk að hjálpa sér því góða fólkið lifir lengur. Þau sem gera góðverk njóta þess, þau sem þiggja njóta og þau sem verða vitni að því fá líka þessi góðu áhrif. Svo hikið ekki við að deila sögum af góðum verkum því það gerir líf okkar allra aðeins betra.

Megið þið vel lifa.

Akranesi

Aðventa 2017

Steinunn Eva Þórðardóttir

(Byggt að mestu á bókinni : The science of compassion eftir Kelly McGonigal)

Þessi pistill birtist fyrst í 49. tbl. Skessuhorns 2017 (6. des.)