Blómstrun

Við erum kannski ekki vön að hugsa um blómstrun í sambandi við fólk. Nema kannski blómabörnin á hippatímabilinu. Þegar sálfræðingar tala um blómstrun í dag er meiningin gerólík “flower power”.

Blómstrun merkir að fólki líður vel og gengur vel.

Blómstrun helst í hendur við árangur

Blómstrandi einstaklingur er  heilbrigðari á líkama og sál (þó að þessi aðgreining sé óþörf). Hann er afkastameiri en aðrir þannig bæði hann og vinnustaður og/eða samfélag njóta góðs af.  Þegar talað er um að sumir blómstri í lífinu eiga sálfræðingar við að þeir búi yfir meira af jákvæðum tilfinningum eins og von, þakklæti, gleði og hamingju.

Blómstrandi fólk nær frekar árangri í lífi sínu, og það hefur orku eða kraft til að gera það sem það þarf og vill gera. Það að vera í góðum, heilbrigðum tengslum við fólkið í kringum þig skiptir mjög miklu máli. Einnig að taka þátt í nánasta samfélagi, fjölskyldusamkomum, vinnustaðaruppákomum og viðburðum í samfélaginu. Ég er ekki að segja að allir þurfi að vera með í götugrillinu á Írskum dögum eða leynivinaleiknum í vinnunni. En allir þurfa að „vera með” einhversstaðar í lífi sínu, vera hluti af samfélagi.

Fólk sem blómstar finnur frekar fyrir tilgangi í lífinu en aðrir. Það hefur eitthvað sem drífur það fram úr rúminu á morgnana, finnst það nógu mikilvægt að mæta í vinnunna eða koma krökkunum í skólann eða hvað það er sem bíður. Sumir hafa hreinlega köllun, mæta í vinnuna til að gera heiminn betri, og það getur átt við næstum hvaða atvinnugrein sem er.

Von byggð á raunsæi

Blómstrandi fólk er þrautseigara og bjartsýnna en þau sem ekki blómstra eða eru að fölna. Sjálfsmynd þeirra sem blómstra er betri og félagsleg samskipti eru jákvæðari.

Það sem mér finnst mest skemmtilegt við þessa upptalningu er að þetta er allt eitthvað sem hægt er að hafa áhrif á. Alveg eins og hægt er að byggja upp líkamlegt þol og styrk með þolinmæði og æfingum, er hægt að byggja upp andlegt þol og vellíðan. Þú ferð auðvitað ekki frá því að vera alvarlega veikur eða slasaður yfir í að hlaupa maraþon á einni viku. En það væri hægt á lengri tíma. Sama má segja um alvarlegt þunglyndi eða vonleysi, þú breytir því ekki á augabragði en það er hægt að komast þaðan yfir í blómstrun. Þetta finnst mér svo fallegt við þessi fræði, það er svo mikil von í þeim. Von byggð á raunsæi nánar tiltekið.

Blómstrandi samfélag?

Þetta má taka lengra; vinnustaðir og samfélög geta blómstrað. Hugsaðu þér heilt bæjarfélag sem er hannað bæði ytra og innra til að auðga líf íbúa og ýta undir að þeir blómstri. Það er draumur minn fyrir minn bæ, Akranes, að hann verði blómstrandi bær.

Bær sem byggir á sannreyndum aðferðum til að láta fólki líða vel þar, væri það ekki eitthvað?

Verum 75% jákvæð

Eitt af því sem ég fæ oft að heyra þegar jákvæð sálfræði berst í tal, er að það sé nú óttaleg vitleysa að allt þurfi að vera jákvætt allan tímann. Þegar ég tek undir það dettur samtalið reyndar fljótt upp fyrir.  Kannski af því fólkið átti von á að ég færi að þrasa um þetta. En það er alveg hárrétt að það er ekki æskilegt að vera of jákvæður. Enda er það ekki það sem jákvæð sálfræði gengur út á.

Jákvæð sálfræði er vísindi

Hún er vísindin um hvað gengur vel og virkar vel hjá okkur mannfólki. Niðurstaðan er skiljanlega oft í takt við almenna skynsemi. Eða leiðbeiningar sem hafa fylgt okkur í árþúsundir frá spekingum og jafnvel glænýjum sjálfshjálpargúrúum. Munurinn er bara sá að það sem sálfræðin hefur fram að færa er byggt á rannsóknum. Vísindi byggja á rannsóknum en ekki brjóstviti eða reynslu, þó það fari sem betur fer oft, en alls ekki alltaf, saman.

Heppilegasta hlutfall jákvæðni

Ástæðan fyrir því að það er ekki gott að vera of jákvæð er að þau sem eru alltaf jákvæð og bjartsýn gætu skotið yfir markið. Þau myndu til dæmis ekki leita læknis vegna einkenna, ekki tékka á fallhlífinni áður en þau stökkva og svo framvegs því þetta “verður örugglega allt í lagi”.  Fólk sem er hinsvegar stöðugt neikvætt og svartsýnt myndi líklega ekki fara í flugvél yfirhöfuð. En það að vera hóflega jákvæð og bjartsýn er það sem reynist best. Nánar tiltekið er heppilegasta hlutfallið þegar fólk er þrisvar sinnum oftar jákvætt en neikvætt. Þetta hefur verið mælt í allskonar kringumstæðum hreinlega með því að greina samræður og viðtöl. Þetta hefur verið gert bæði í fyrirtækjum og í sjónvarpi. Þá er talið hve oft fólk segir jákvæða eða neikvæða hluti um íþróttaliðið sem það þjálfar, starfsfólkið sitt, samstarfsfólk eða nemendur. Samhljóma niðurstaða er að þetta tiltekna hlutfall spái velgengni og góðum árangri til dæmis í íþrótt eða viðskiptum. Lægra hlutfall spáir á sama hátt fyrir slæmu gengi og tapi.

Það er mikilvægt að innræta jákvæðni og von hjá börnum.

Það neikvæða hefur meiri vægi

Þegar samtöl hjóna eru greind er hægt að spá með talsverðu öryggi um hve lengi hjónabandið muni vara. Þar er ekki nóg að hafa þrenn jákvæð ummæli á móti einu neikvæðu, heldur er æskilegra að hlutfallið sé fimm á móti einu, telji nú hver fyrir sig. Ef hjón eru nærri hlutfallinu eitt á móti einu eru mestar líkur á að sambandið sé dauðadæmt og eigi stutt eftir. Það að það er ekki nóg að hafa eitt jákvætt á móti einu neikvæðu skýrist af því að það neikvæða hefur meira vægi. Leikarar kannast við það hvernig einn slæmur dómur drepur gleðina af fleiri jákvæðum. Þetta er innbyggt í okkur og hefur stuðlað að afkomu mannskyns en fyrir gott líf hvers einstaklings er betra að gleðjast. Það eru ekki nýjar fréttir. Predikarinn skrifaðir fyrir um 2000 árum: “Og ég lofaði gleðina því að ekkert betra er til fyrir manninn undir sólinni en að eta og drekka og vera glaður” (8:15).

Vonin getur bjargað heilsunni

Margir líta þannig á að það sé það sama að vera raunsær og vera svartsýnn. Það að horfa bjartsýnum augum á framtíðina sé hálfgerður kjánaskapur og draumórar. Það sé best að búast við hinu versta. Læknar höfðu hér áður fyrr miklar áhyggjur af því að vekja vonir hjá sjúklingum. Þeir hafa sem betur ferið áttað sig á því fyrir löngu að án vonar er ólíklegt að fólk geri það sem það þarf til að halda eða ná heilsu.

Ráð mitt er því einfalt eins og oftast: Vertu jákvæð/ur og bjartsýn/n 75% tímans og þér mun farnast vel!