Blómstrun

Við erum kannski ekki vön að hugsa um blómstrun í sambandi við fólk. Nema kannski blómabörnin á hippatímabilinu. Þegar sálfræðingar tala um blómstrun í dag er meiningin gerólík “flower power”.

Blómstrun merkir að fólki líður vel og gengur vel.

Blómstrun helst í hendur við árangur

Blómstrandi einstaklingur er  heilbrigðari á líkama og sál (þó að þessi aðgreining sé óþörf). Hann er afkastameiri en aðrir þannig bæði hann og vinnustaður og/eða samfélag njóta góðs af.  Þegar talað er um að sumir blómstri í lífinu eiga sálfræðingar við að þeir búi yfir meira af jákvæðum tilfinningum eins og von, þakklæti, gleði og hamingju.

Blómstrandi fólk nær frekar árangri í lífi sínu, og það hefur orku eða kraft til að gera það sem það þarf og vill gera. Það að vera í góðum, heilbrigðum tengslum við fólkið í kringum þig skiptir mjög miklu máli. Einnig að taka þátt í nánasta samfélagi, fjölskyldusamkomum, vinnustaðaruppákomum og viðburðum í samfélaginu. Ég er ekki að segja að allir þurfi að vera með í götugrillinu á Írskum dögum eða leynivinaleiknum í vinnunni. En allir þurfa að „vera með” einhversstaðar í lífi sínu, vera hluti af samfélagi.

Fólk sem blómstar finnur frekar fyrir tilgangi í lífinu en aðrir. Það hefur eitthvað sem drífur það fram úr rúminu á morgnana, finnst það nógu mikilvægt að mæta í vinnunna eða koma krökkunum í skólann eða hvað það er sem bíður. Sumir hafa hreinlega köllun, mæta í vinnuna til að gera heiminn betri, og það getur átt við næstum hvaða atvinnugrein sem er.

Von byggð á raunsæi

Blómstrandi fólk er þrautseigara og bjartsýnna en þau sem ekki blómstra eða eru að fölna. Sjálfsmynd þeirra sem blómstra er betri og félagsleg samskipti eru jákvæðari.

Það sem mér finnst mest skemmtilegt við þessa upptalningu er að þetta er allt eitthvað sem hægt er að hafa áhrif á. Alveg eins og hægt er að byggja upp líkamlegt þol og styrk með þolinmæði og æfingum, er hægt að byggja upp andlegt þol og vellíðan. Þú ferð auðvitað ekki frá því að vera alvarlega veikur eða slasaður yfir í að hlaupa maraþon á einni viku. En það væri hægt á lengri tíma. Sama má segja um alvarlegt þunglyndi eða vonleysi, þú breytir því ekki á augabragði en það er hægt að komast þaðan yfir í blómstrun. Þetta finnst mér svo fallegt við þessi fræði, það er svo mikil von í þeim. Von byggð á raunsæi nánar tiltekið.

Blómstrandi samfélag?

Þetta má taka lengra; vinnustaðir og samfélög geta blómstrað. Hugsaðu þér heilt bæjarfélag sem er hannað bæði ytra og innra til að auðga líf íbúa og ýta undir að þeir blómstri. Það er draumur minn fyrir minn bæ, Akranes, að hann verði blómstrandi bær.

Bær sem byggir á sannreyndum aðferðum til að láta fólki líða vel þar, væri það ekki eitthvað?