Markþjálfun: Hvað finnst þér?

Markþjálfun er ekki tengd fótbolta eða markmannaþjálfun, þó að orðið sé skylt því að sækja að marki eða markmiði.

Hvað er markþjálfun?

Markþjálfun (e. coaching) felur ekki alltaf í sér markmiðssetningu eins og nafnið gefur til kynna. Markþjálfun snýst frekar um að sækja fram í lífinu og finna leiðir til að þróast áfram sem einstaklingur. Marksækjandinn, sá sem leitar til markþjálfa, vill kannski fá skýrari sýn á tilfinningar sínar, langanir eða hugsanir. Hann gæti viljað þekkja sig betur eða gera breytingar til hins betra á lífinu. Þær breytingar gætu verið að bæta heilsuna eða sambönd sín við mikilvægt fólk í lífi sínu. Markþjálfinn gefur ekki ráð heldur leiðir ferlið með góðri hlustun og spurningum.

Kraftur góðra spurninga

Það má hugsa sér að markþjálfin haldi spegli upp fyrir þann sem leitar til hans, þannig að fólki gengur betur að átta sig áhvað það er sem það vill. Eða eins og einhver sagði eftir fyrsta markþjálfunartímann sinn til að útskýra af hverju hann hefði verið svo hjálplegur: “Ég var spurð svo góðra spurninga að ég neyddist til að skilja sjálf hvað ég var að tala um!” 

 


 

 

 

 

 

Samúðarfull hlustun

Flestir kannast við það hvað það er gott að tala um vandamál, jafnvel við fólk sem veit ekkert um hvað málið snýst. Eiginmaður minn notar mig stundum til að fara yfir vandamál í sambandi við forritun. Þegar hann heyrir sig rekja hvað hann er búinn að gera áttar hann sig á hvað á eftir að prófa . Ég þarf ekkert að ráðleggja honum, enda væri það til lítils. Allar vinkonur þekkja þetta, hvað það er gott að segja hver annarri frá því er í gangi og fá samúðarfulla hlustun. Markþjálfun er þetta hvorutveggja, samúðarfull hlustun og greining á vanda en samt líka meira. Það er bæði ákveðin tækni og reynsla sem beitt er til að fyrst fá fram viðfangsefni og síðan að byggja upp gróskuhugarfar og sjálfstrú til að fólk taki þau skref sem það vill og eða þarf að taka til að laga til í lífi sínu eða kolli.

Hlutlaus hlustun

Marksækjandinn er stundum látinn gera æfingar í huganum. Hann á að sjá fyrir sér hvernig lífið gæti verið eða fara fram og aftur í tíma til að skoða breytingar eða hugsa um ákveðna þætti lífs síns. Það að hafa einhvern hlutlausan hlustanda sem veitir tíma og fulla athygli er fyrir flesta mjög orkugefandi og notaleg tilfinning. En markþjálfun getur líka verið tilfinningalega erfið, til að mynda ef þú þarft að horfast í augu við eitthvað sárt. Það sem þú færð hinsvegar ekki hjá markþjálfa er sjúkdómsgreining eða meðferð, til þess þarftu að leita til fagfólks eins og sálfræðinga eða geðlækna.

Mín kynni af markþjálfun

Undirrituð er í markþjálfunarnámi og átti í upphafi pínu erfitt með að taka því að þetta byggir að hluta til á grunni sem var alls ekki “í tísku” þegar ég var í sálfræðináminu. Mannúðarsálfræði og innsæi sem tengist Freud  var vægast sagt ekki hátt skrifað hjá kennurunum í HÍ, sem flissuðu þegar nafnið var nefnt. Upplifun mín er hinsvegar sú að með þessari viðbót hafi heilinn og hjartað náð jafnvægi. 

 

 

 

 

 

 

Í náminu sé ég hvernig allskyns starfstéttir hagnast á að bæta markþjálfun inn í starf sitt. Hárgreiðslufólk, kennarar, afgreiðslufólk, kynfræðingar, prestar, íþróttaþjálfarar, fólk í forvarna eða meðferðargeiranum og augljóslega er snilld fyrir fjölskyldufólk að tileinka sér viðhorf og hlustun markþjálfans. Eitt af því er að svara ekki spurningum beint heldur varpa þeim til baka á spyrjandann, spegla, fá viðkomandi til að hugsa sjálfan og finna svarið. Það nýstárlega við námið var einmitt að kennararnir svöruðu lengi vel engu, heldur var viðkvæðið: “Hvað finnst þér?” “Eða hvað heldur þú?” sem minnti mig á gamanleikritið “á sama tíma að ári”. Þar hafði karlinn farið í mannúðarsálfræðimeðferð og tileinkað sér þetta svar. Fyrir mig sem gamlan kennara var það alveg nýtt og mjög hressandi að læra án þess að vera “kennt” og byrja að æfa mig án þess að lesa fyrst kennslubókina. Mjög lærdómsríkt ferli skal ég glöð votta.

Myndin er úr bókinni Markþjálfun, vilji, vit, vissa eftir Matilda Gregersdotter, Arnón Má Másson og Hauk Inga Jónsson. Teiknari er Halldór Baldursson

Pistillinn birtist fyrst í Skessuhorni 17.5 2018