Verum 75% jákvæð

Eitt af því sem ég fæ oft að heyra þegar jákvæð sálfræði berst í tal, er að það sé nú óttaleg vitleysa að allt þurfi að vera jákvætt allan tímann. Þegar ég tek undir það dettur samtalið reyndar fljótt upp fyrir.  Kannski af því fólkið átti von á að ég færi að þrasa um þetta. En það er alveg hárrétt að það er ekki æskilegt að vera of jákvæður. Enda er það ekki það sem jákvæð sálfræði gengur út á.

Jákvæð sálfræði er vísindi

Hún er vísindin um hvað gengur vel og virkar vel hjá okkur mannfólki. Niðurstaðan er skiljanlega oft í takt við almenna skynsemi. Eða leiðbeiningar sem hafa fylgt okkur í árþúsundir frá spekingum og jafnvel glænýjum sjálfshjálpargúrúum. Munurinn er bara sá að það sem sálfræðin hefur fram að færa er byggt á rannsóknum. Vísindi byggja á rannsóknum en ekki brjóstviti eða reynslu, þó það fari sem betur fer oft, en alls ekki alltaf, saman.

Heppilegasta hlutfall jákvæðni

Ástæðan fyrir því að það er ekki gott að vera of jákvæð er að þau sem eru alltaf jákvæð og bjartsýn gætu skotið yfir markið. Þau myndu til dæmis ekki leita læknis vegna einkenna, ekki tékka á fallhlífinni áður en þau stökkva og svo framvegs því þetta “verður örugglega allt í lagi”.  Fólk sem er hinsvegar stöðugt neikvætt og svartsýnt myndi líklega ekki fara í flugvél yfirhöfuð. En það að vera hóflega jákvæð og bjartsýn er það sem reynist best. Nánar tiltekið er heppilegasta hlutfallið þegar fólk er þrisvar sinnum oftar jákvætt en neikvætt. Þetta hefur verið mælt í allskonar kringumstæðum hreinlega með því að greina samræður og viðtöl. Þetta hefur verið gert bæði í fyrirtækjum og í sjónvarpi. Þá er talið hve oft fólk segir jákvæða eða neikvæða hluti um íþróttaliðið sem það þjálfar, starfsfólkið sitt, samstarfsfólk eða nemendur. Samhljóma niðurstaða er að þetta tiltekna hlutfall spái velgengni og góðum árangri til dæmis í íþrótt eða viðskiptum. Lægra hlutfall spáir á sama hátt fyrir slæmu gengi og tapi.

Það er mikilvægt að innræta jákvæðni og von hjá börnum.

Það neikvæða hefur meiri vægi

Þegar samtöl hjóna eru greind er hægt að spá með talsverðu öryggi um hve lengi hjónabandið muni vara. Þar er ekki nóg að hafa þrenn jákvæð ummæli á móti einu neikvæðu, heldur er æskilegra að hlutfallið sé fimm á móti einu, telji nú hver fyrir sig. Ef hjón eru nærri hlutfallinu eitt á móti einu eru mestar líkur á að sambandið sé dauðadæmt og eigi stutt eftir. Það að það er ekki nóg að hafa eitt jákvætt á móti einu neikvæðu skýrist af því að það neikvæða hefur meira vægi. Leikarar kannast við það hvernig einn slæmur dómur drepur gleðina af fleiri jákvæðum. Þetta er innbyggt í okkur og hefur stuðlað að afkomu mannskyns en fyrir gott líf hvers einstaklings er betra að gleðjast. Það eru ekki nýjar fréttir. Predikarinn skrifaðir fyrir um 2000 árum: “Og ég lofaði gleðina því að ekkert betra er til fyrir manninn undir sólinni en að eta og drekka og vera glaður” (8:15).

Vonin getur bjargað heilsunni

Margir líta þannig á að það sé það sama að vera raunsær og vera svartsýnn. Það að horfa bjartsýnum augum á framtíðina sé hálfgerður kjánaskapur og draumórar. Það sé best að búast við hinu versta. Læknar höfðu hér áður fyrr miklar áhyggjur af því að vekja vonir hjá sjúklingum. Þeir hafa sem betur ferið áttað sig á því fyrir löngu að án vonar er ólíklegt að fólk geri það sem það þarf til að halda eða ná heilsu.

Ráð mitt er því einfalt eins og oftast: Vertu jákvæð/ur og bjartsýn/n 75% tímans og þér mun farnast vel!

Seig börn

“Þú ert rosaduglegur strákur”, segir tannlæknirinn, “já ég veit” svarar þriggja ára stráklingur rogginn. Þegar heim var komið þurfti að endurtaka söguna af dugnaðinum og amma sagði: “Þú er aldeilis “seigur”,” sem hann spurði hvað merkti og fékk svarið duglegur. Seigur gæti líka verið stytting á þrautseigur sem er náskylt dugnaði en ekki alveg það sama.

Þrautseigja

Þrautseigja er að hafa úthald til að klára hluti, líka erfiða. Það er að seiglast áfram í gegnum leiðinleg verk eða gegnum skólagöngu sem er leiðin að þeirri framtíð sem þú óskar þér en er ekki alveg sú nútíð sem þig langar mest að vera í, svo dæmi séu tekin.

Seigi ömmustrákurinn

Bjartsýni og þrautseigja

Eins og flest í fari okkar er þrautseigja að einhverju leyti meðfædd en það er hægt að hafa áhrif á hana og mikilvægt að börn læri þrautseigju og bjartsýni því það er svo gagnlegt í lífinu. Þeim sem eru bjartsýn gengur betur en próf myndu spá fyrir í skóla, þau taka sig frekar á þegar þau fá skell og eru bæði heilsuhraustari og ánægðari með lífið. Þessir eiginleikar tengjast það að sjá bjart framundan, en von um betri tíð, er að mínu mati lykill að þrautseigju.

Vonleysi eða von

Börn geta lært hvort heldur vonleysi eða von. Lært hjálparleysi er bæði uppskrift að slæmu gengi í skóla og þunglyndi. Því miður er líklegt að börn sem fá of erfið verkefni í skóla læri mjög hratt vonleysi sem kemur þannig fram að þau missa áhuga og hætta að reyna við námið af alvöru. Þetta á auðvitað við um öll verkefni. Ef foreldri gerir of miklar kröfur sem barnið hefur ekki möguleika á að standa undir gerist það sama. Ef kröfurnar eru þannig að barn á “alltaf” eða “aldrei” að gera eitthvað, eru þær óraunsæjar.

Börn eru alveg eins og þau eiga að vera

Börn eru stundum óþekk. Þau taka ekki alltaf til né segja alltaf satt, alveg eins og við fullorðna fólkið. Þau eru ekki fullkomin en eru samt alveg eins og þau eiga að vera, og elsku verð, eins og við. Hitt er líka til að foreldri elski barnið svo ógurlega að það geri of litlar kröfur og hlífi barninu á allan hátt. Ef barnið kvíðir fyrir prófi hringir foreldrið það inn lasið, ef það mætir og gengur illa er það prófið eða kennarinn sem er ómögulegur, því er alltaf skutlað í skólann því það er svo mikið vesen að ganga og svo framvegis. Þrautseigja og sjálfstrú lærist hinsvegar bara við að takast á við hluti og komast yfir erfiðleika.

Að innræta gróskuhugarfar

Það að innræta börnum gróskuhugarfar er ein undirstaðan, fyrst þarf uppalandinn reyndar að tileinka sér það, þannig virkar uppeldi, þú þarft að verða sú fullorðna manneskja sem þú vilt að barnið verði. Þau læra af því hvernig þú ert og hvernig þú tekst á við erfiðleika og mistök. Gróskuhugarfar er meðal annars að horfa á erfiðleika, mistök og gagnrýni með þeim augum að þú getir lært af þeim. Þá tapar þú aldrei, annað hvort tekst þér ætlunin eða þú lærir af mistökunum og getur jafnvel deilt fyndinni sögu. Mundu að hvort sem þú trúir því að þér mistakist eða náir árangri er líklegast að það gangi eftir, eins og haft er eftir Henry Ford.