Óvænt afrek miðaldra heila

Það hafa einhvern veginn öll aldurskeið fengið að njóta athygli og verið rannsökuð nema helst miður aldur. Heilar fóstra, barna og unglinga hafa verið rannsökuð í bak og fyrir, aldraðir nokkuð. En hinn miðaldra heili hefur ekki vakið spennu hjá rannsakendum. Kannski af því að við töldum okkur öll vita að þar gerðist lítið nema þá mishröð hnignun í takt við gránandi hár og slaknandi brjóst. 

Gróska hins miðaldra heila

Niðurstöður langtímarannsóknar sem fylgdi 6000 manns eftir í 40 ár og mældi reglulega hugræna getu, voru að þó að fólk verði hægara og gleymnara með aldrinum þá stóð fólk á aldrinum 40-60 ára sig betur en bæði yngra og eldra fólk í 4 af 6 mælingum á vitsmunum, sem sagt orðaforða, skilning, rökhugsun og rúmskynjun (sjá fyrir sér hvernig þrívíður hlutur liti út frá öðru sjónarhorni). Aðrar rannsóknir hafa sýnt að miðaldra heilinn notar bæði heilahvel við starf sitt og það gefur meiri kraft í hugræna vinnslu, fólk hefur dýpri skilning, sér stærri myndina betur.  Heimurinn verður ekki bara svartur og hvítur heldur greinir fólk fleiri blæbrigði, stjórnar betur tilfinningum sínum og er jákvæðara en það er á öðrum aldursstigum. Þetta eru auðvitað meðaltöl, einhverjir toppa 25 ára og aðrir 75 ára. Sumir ná aldrei miklum þroska, við þekkjum öll einhvern gamlan kjána, ekki satt?

Ekki hrörnun heldur streita

Mér sem konu sem hvorki telst vera ung né gömul, og passa því í þennan flokk „miðaldra“ þótti varið í að komast í bók sem rekur fjölda rannsókna, bæði langtíma, og þverskurðar auk megindlegra djúprannsókna sem sýna fram á að þvert á það sem allir halda, við hin miðaldra líka, er ýmislegt gott að gerast milli eyrnanna. Eins og alltaf tökum við frekar eftir því sem ekki í lagi. Ég verð miður mín þegar ég finn ekki bíllyklana enn eina ferðina eða hreinlega man ekki hvar ég lagði. Gleraugun enda í ísskápnum og  appelsínusafinn fer í skeið en lýsið í glasið. Þetta fékk mig til að halda að ég væri að verða stofnanamatur en var fullvissuð um af lækni að þetta væri ekki snemmtilkominn alzheimersjúkdómur, heldur tengt aldri og streitu.

Erum við að hætta of snemma að vinna?

Auk þess að rannsaka fólk á rannsóknarstofu hafa menn skoðað raunveruleg störf. Sumstaðar er fólk neytt til að hætta störfum við snemma. Þeir sem starfa við flug og flugumferðastjórn geta hætt störfum 55 ára því það var talið að þá væri heilanum farið að hraka. En rannsóknirnar í hermum sýndu að þau eldri tóku jafngóðar eða betri ákvarðanir en þau yngri.

Það að fólk man verr og er auðtruflaðra fer ekki framhjá því og fólk bregst við með því að útiloka truflanir. Þau slökkva á útvarpinu og skrifa hjá sér minnispunkta. Þetta er ekki galli heldur þvert á móti gerir vinnuna gegnsæja og praktískara t.d. ef annar þyrfti skyndilega að leysa af. Heilar eldri flugmanna og flugumferðastjóra er ögn hægari og aðeins lengur að læra nýja hluti en þeirra yngri. Á móti kemur að þeir áttu betur með að sjá heildarmynd, áttuðu sig betur á aðstæðum í þrívídd og átta sig á hvað skipti mestu máli.

Við lærum svo lengi sem við lifum

Ungt fólk er með ferskan og sprækan heila, það er með jafnmargar eða fleiri heilafrumur en þau sem eldri eru en taka samt stundum óskynsamlegar ákvarðanir, ekki satt? Það gæti starfað af því að þó að heilinn hafi svipað magn af heilasellum (gráa efnið) eru þær ekki slíðraðar (hvíta efnið), en hvíta efnið gerir hugræna vinnslu hraðari, skapar „breiðband“ í heilavefnum. Það er að koma í ljós að slíðrun er ekki lokið um og upp úr tvítugu eins og við héldum heldur er heilinn að bæta því við sig langt fram eftir ævinni einkum á svæðum sem tengjast því sem við sérhæfum okkur í. Mismunandi eftir fólki.

Þannig að við lærum svo lengi sem við lifum og þó að við týnum af okkur gleraugunum er okkur þessum miðaldra algerlega treystandi til að vinna vel og skara framúr á okkar sérfræðisviðum, hver svo sem þau eru. Unga fólkið er vissulega með fulla skynsemi og fljótt að læra en þau eldri hafa almennt séð betri dómgreind og dýpri eða víðari skilning. Vei fyrir því 😊

Byggt á „The secret life of the grown-up brain: the surprising talents of the middle-aged mind“ eftir B. Strauch.

Steinunn Eva Þórðardóttir, 2020

Blómstrun

Við erum kannski ekki vön að hugsa um blómstrun í sambandi við fólk. Nema kannski blómabörnin á hippatímabilinu. Þegar sálfræðingar tala um blómstrun í dag er meiningin gerólík “flower power”.

Blómstrun merkir að fólki líður vel og gengur vel.

Blómstrun helst í hendur við árangur

Blómstrandi einstaklingur er  heilbrigðari á líkama og sál (þó að þessi aðgreining sé óþörf). Hann er afkastameiri en aðrir þannig bæði hann og vinnustaður og/eða samfélag njóta góðs af.  Þegar talað er um að sumir blómstri í lífinu eiga sálfræðingar við að þeir búi yfir meira af jákvæðum tilfinningum eins og von, þakklæti, gleði og hamingju.

Blómstrandi fólk nær frekar árangri í lífi sínu, og það hefur orku eða kraft til að gera það sem það þarf og vill gera. Það að vera í góðum, heilbrigðum tengslum við fólkið í kringum þig skiptir mjög miklu máli. Einnig að taka þátt í nánasta samfélagi, fjölskyldusamkomum, vinnustaðaruppákomum og viðburðum í samfélaginu. Ég er ekki að segja að allir þurfi að vera með í götugrillinu á Írskum dögum eða leynivinaleiknum í vinnunni. En allir þurfa að „vera með” einhversstaðar í lífi sínu, vera hluti af samfélagi.

Fólk sem blómstar finnur frekar fyrir tilgangi í lífinu en aðrir. Það hefur eitthvað sem drífur það fram úr rúminu á morgnana, finnst það nógu mikilvægt að mæta í vinnunna eða koma krökkunum í skólann eða hvað það er sem bíður. Sumir hafa hreinlega köllun, mæta í vinnuna til að gera heiminn betri, og það getur átt við næstum hvaða atvinnugrein sem er.

Von byggð á raunsæi

Blómstrandi fólk er þrautseigara og bjartsýnna en þau sem ekki blómstra eða eru að fölna. Sjálfsmynd þeirra sem blómstra er betri og félagsleg samskipti eru jákvæðari.

Það sem mér finnst mest skemmtilegt við þessa upptalningu er að þetta er allt eitthvað sem hægt er að hafa áhrif á. Alveg eins og hægt er að byggja upp líkamlegt þol og styrk með þolinmæði og æfingum, er hægt að byggja upp andlegt þol og vellíðan. Þú ferð auðvitað ekki frá því að vera alvarlega veikur eða slasaður yfir í að hlaupa maraþon á einni viku. En það væri hægt á lengri tíma. Sama má segja um alvarlegt þunglyndi eða vonleysi, þú breytir því ekki á augabragði en það er hægt að komast þaðan yfir í blómstrun. Þetta finnst mér svo fallegt við þessi fræði, það er svo mikil von í þeim. Von byggð á raunsæi nánar tiltekið.

Blómstrandi samfélag?

Þetta má taka lengra; vinnustaðir og samfélög geta blómstrað. Hugsaðu þér heilt bæjarfélag sem er hannað bæði ytra og innra til að auðga líf íbúa og ýta undir að þeir blómstri. Það er draumur minn fyrir minn bæ, Akranes, að hann verði blómstrandi bær.

Bær sem byggir á sannreyndum aðferðum til að láta fólki líða vel þar, væri það ekki eitthvað?

“Og skammastu þín svo!”

Skömm er vond

Ég skammaðist mín mikið sem barn. Ég veit náttúrlega ekki hvort aðrir gerðu það en svona eftir á að hyggja grunar mig að það hafi jafnvel verið óhóflegt. Ég var alls ekkert svo slæmur krakki, í mínu minni allavega.

„Þú ert nú meiri prófessorinn!“

Í þá daga tíðkuðust líkamlegar hirtingar ekki lengur en það þótti sjálfsagt að nota harkaleg orð sem vísuðu til persónuleika. “Þú ert nú meiri prófessorinn“. „Þú myndir týna af þér hausnum ef hann væri ekki skrúfaður fastur” voru frasar sem ég heyrði í ýmsum útgáfum. Það þótti ekki flott að vera prófessor á þeim árum, bara til að skýra þetta fyrir nútímafólki. Börn áttu að sjást en ekki heyrast og ekki vera að ónáða fullorðna fólkið. Í veislum fengu börnin síðast. Það átti ekki að klaga, ekki að monta sig og guð hjálpi þeim sem var með eitthvað væl! Athugið að þetta er sko ekki væl, ég er bara að rifja upp…

Skömm gerir aðeins ógagn

En alveg upp á síðkastið á seinni hluta míns þroskaferils, hef ég verið að endurskoða hugmyndir mínar, meðal annars til þess að skammast mín. Niðurstaða er kannski ekki alveg komin en mér sýnist margt benda til þess að það sé fullkomin óþarfi að skammast sín, nokkurn tímann. Og “hana þá” eins og ein dóttir mín sagði. Þó að við gerum mistök, gleymum til dæmis að skila inn skattaskýrslu, sem öllum öðrum tekst að gera, þá þarf ekkert að skammast sín. Það er ekki hjálplegt, gerir reyndar meira ógagn því það að skammast sín fyrir mistök, gerir það ólíklegra að fólk leiti sér hjálpar eða láti vita af því sem aflaga fór.

Sýndu þér góðvild. Ekki vera vonda nunnan í Westeros.

Skömm getur farið úr böndunum

Mjög raunhæft dæmi er þegar vinnustaður vinnur að stóru verkefni sem á að skila á ákveðnum tíma. Starfsmaður sem á að leysa ákveðin hluta verkefninsins en lendir í vandræðum, skammast sín fyrir það og lætur engan vita, vinnur daga og nætur og verður úttaugaður. Þegar málið loks kemst upp er kannski of seint að bjarga málum sem hefði verið “kökusneið” (e. a piece of cake) ef hann hefði strax leitað til samstarfsfélaga eða yfirmanns og þau leyst það saman.

Munurinn á sekt og skömm

Ef “mistökin” sem fólk gerir eru beinlínis refsiverð eins og að beita ofbeldi eða ræna, gerir skömm ekkert gagn heldur, en það er ekki þar með sagt að það sé í lagi. Það þarf að gera skýran greinarmun á sekt og skömm. Þetta eru eðlisólík hugtök. Ef ég geri eitthvað rangt, móðga einhvern í reiði bætir það ekki ástandið að skammast sín, en það að viðurkenna að hegðunin var óviðeigandi eða særandi og biðjast afsökunar eða bæta á einhvern hátt fyrir er mun gæfulegra viðbragð.

Hollast er að viðurkenna mistök

Brené Brown er bráðfyndin vísindasögumaður (vísindakona sem kynnir rannsóknir með skemmtilegum frásögnum) sem hefur rannsakað skömm og berskjöldun í mörg ár og er líklega hugmyndafræðingur “me-too”-byltingarinnar, a.m.k. rakst ég fyrst á þetta slagorð hjá henni, leiðréttið mig ef þið vitið betur. Niðurstöður hennar eru að skömm þrífst best í einangrun, þögn og dómhörku, en verst í nálægð samhygðar (empathy). Í hennar orðum: “The two most powerful words when we´re in struggle: me too” (tekið af https://www.ted.com/talks/brene_brown_listening_to_shame).

Þegar (ekki ef) við gerum mistök

Samkvæmt Brené Brown tengist skömm sterklega við fíkn, þunglyndi, ofbeldi, einelti, sjálfsvíg, átraskanir og árásargirnd. Meðan sekt hinsvegar er alveg á hinn veginn, fylgnin er neikvæð sekt gerir ólíkegra að þú hafir eitthvað af þessum neikvæðu fyrirbærum. Það að geta séð að það sem við gerðum passar ekki við hugmyndafræðina okkar og geta lært af því, er þroskandi og stuðlar að aðlögun. Þannig að þegar við gerum mistök, ekki “ef” því við erum víst öll mannleg, þá er skynsamlegra og hagkvæmara fyrir bæði einstaklinginn sjálfan og samfélagið að viðurkenna mistökin eða vanmáttinn eða hvað það er, biðjast afsökunar ef þess þarf, fá aðstoð eða lesa sér betur til og halda svo áfram sem betri manneskja.

Niðurstaða

Við finnum öll fyrir skömm öðru hvoru, ekki dæma þig fyrir það. Eina fólkið sem ekki upplifir hana eru siðblindingjar, en ekki dæma þá heldur. Það er ástand sem fólk velur sér ekki. Það sem við getum gert er að reyna að góma okkur þegar við erum dómhörð við okkur sjálf og sýna okkur frekar samhygð. Einkum á erfiðum stundum þegar við höfum gert einhvera bölvaða vitleysu. í staðinn fyrir að gera illt verra með hörku. Munum að þetta getur komið fyrir alla, við erum bara manneskjur eins og hinir en ekki fullkomin eins og okkur langar samt svo mikið til að vera. Hættu nú að skammast þín og farðu að sýna þér sömu góðvild og öðrum.

Það að lifa MEIRA

Muniði eftir sögunni af hjónunum sem fóru að rífast eftir 50 ára friðsamt hjónaband? Orð óx af orði og loks segir konan, “Hvernig getur þú sagt þetta við mig ég sem hef alltaf gefið þér sporðstykkið, uppáhaldið mitt, öll okkar hjónabandsár? Karlinn svarar, “Sporðstykkið, mér finnst ekkert varið í það en ég hef alltaf gefið þér hausinn sem mér finnst algert sælgæti.”

Þetta á að vera gamansaga en er samt svo hræðilega sorgleg. Fólk sem af misskilinni góðmennsku fer á mis við það sem þeim þykir best í marga áratugi. Misskilning sem auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir ef þau hefðu talað heiðarlega saman fyrr.

Raunveruleg góðmennska

Raunveruleg góðmennska hefði verið að ætla hinu hið besta og vera einlæg varðandi eigin þarfir og mörk. Söguhjónin hafa þvert á móti ætlað hvort öðru að gramsa til sín besta partinn en ekki opnað sig með sína löngun í ákveðinn part af fiskinum. Afleiðingin var sú að þau átu “vonda hlutann” í hálfa öld. Þau voru ekki að lifa MEIRA.

Að lifa meira

Það að tala heiðarlega um hvað það er sem er í lagi og ekki í lagi í samskiptum er gott bæði fyrir þig og aðra í kringum þig. Þetta kallar Brene Brown að lifa MEIRA (e. living BIG): Setja Mörk, tala af Einlægni og sýna Rausn.

Rausnin merkir það að ætla fólki góðan ásetning eða vilja.

Einlægni er að tala af heilindum og heiðarleika líka þegar það er óþægilegt.

Mörk er gríðalega mikilvægt að setja og passa að þau séu í takt við þau gildi sem okkur eru mikilvægust.

Við þolum oft verst það fólk sem ekki virðir mörkin okkar. Fólk sem truflar okkur þegar við erum í flæði í vinnunni. Biður okkur um viðvik þegar við erum undir miklu álagi. Eða tekur efni sem við höfum búið til og notar sem sitt. Í stað þess að trúa því að fólk sé viljandi að vanvirða okkur, tíma okkar eða afurðir er hagnýtara að vera sjálf/ur skýr með hvað sé í lagi. “Ég get því miður ekki hjálpað þér núna.” “Þegar ég er að klára önninna sem kennari þarf ég næði til að einbeita mér.”  Eða “Það efni sem er á heimasíðunni minni má nota til einkanota en ekki dreifa eða selja” og svo framvegis.

Hvað ef fólk er að gera sitt besta?

Ef þú vilt prófa að lifa MEIRA  geturðu spurt þig þessar spurningar:  Hugsaðu um einhverja manneskju sem pirrar þig til dæmis á vinnustaðnum. Gefðu þér næst að viðkomandi sé að gera sitt allra besta miðað við getu, hæfni og aðstæður sínar, einmitt núna. Hvernig breytir það upplifun þinni af aðstæðunum?

Skýrt er vinsemd (óskýrt er óvinsemd)

Það að tala ekki um það sem er í ólagi í samskiptum hvort heldur er vinahóps eða samstarfsfólks er mjög kröftug leið til að eyðileggja tengslin á alveg sama hátt og hjá hjónunum í byrjun. Ef allir aðilar eru að stilla sig til að halda friðinn er ekkert líklegra en að einmitt það moli traustið sem þarf að vera á milli til að tengslin haldist góð.

Það að lifa meira er að vera sjálfum sér trú, setja mörk og ætla fólki hið besta.

Verum 75% jákvæð

Eitt af því sem ég fæ oft að heyra þegar jákvæð sálfræði berst í tal, er að það sé nú óttaleg vitleysa að allt þurfi að vera jákvætt allan tímann. Þegar ég tek undir það dettur samtalið reyndar fljótt upp fyrir.  Kannski af því fólkið átti von á að ég færi að þrasa um þetta. En það er alveg hárrétt að það er ekki æskilegt að vera of jákvæður. Enda er það ekki það sem jákvæð sálfræði gengur út á.

Jákvæð sálfræði er vísindi

Hún er vísindin um hvað gengur vel og virkar vel hjá okkur mannfólki. Niðurstaðan er skiljanlega oft í takt við almenna skynsemi. Eða leiðbeiningar sem hafa fylgt okkur í árþúsundir frá spekingum og jafnvel glænýjum sjálfshjálpargúrúum. Munurinn er bara sá að það sem sálfræðin hefur fram að færa er byggt á rannsóknum. Vísindi byggja á rannsóknum en ekki brjóstviti eða reynslu, þó það fari sem betur fer oft, en alls ekki alltaf, saman.

Heppilegasta hlutfall jákvæðni

Ástæðan fyrir því að það er ekki gott að vera of jákvæð er að þau sem eru alltaf jákvæð og bjartsýn gætu skotið yfir markið. Þau myndu til dæmis ekki leita læknis vegna einkenna, ekki tékka á fallhlífinni áður en þau stökkva og svo framvegs því þetta “verður örugglega allt í lagi”.  Fólk sem er hinsvegar stöðugt neikvætt og svartsýnt myndi líklega ekki fara í flugvél yfirhöfuð. En það að vera hóflega jákvæð og bjartsýn er það sem reynist best. Nánar tiltekið er heppilegasta hlutfallið þegar fólk er þrisvar sinnum oftar jákvætt en neikvætt. Þetta hefur verið mælt í allskonar kringumstæðum hreinlega með því að greina samræður og viðtöl. Þetta hefur verið gert bæði í fyrirtækjum og í sjónvarpi. Þá er talið hve oft fólk segir jákvæða eða neikvæða hluti um íþróttaliðið sem það þjálfar, starfsfólkið sitt, samstarfsfólk eða nemendur. Samhljóma niðurstaða er að þetta tiltekna hlutfall spái velgengni og góðum árangri til dæmis í íþrótt eða viðskiptum. Lægra hlutfall spáir á sama hátt fyrir slæmu gengi og tapi.

Það er mikilvægt að innræta jákvæðni og von hjá börnum.

Það neikvæða hefur meiri vægi

Þegar samtöl hjóna eru greind er hægt að spá með talsverðu öryggi um hve lengi hjónabandið muni vara. Þar er ekki nóg að hafa þrenn jákvæð ummæli á móti einu neikvæðu, heldur er æskilegra að hlutfallið sé fimm á móti einu, telji nú hver fyrir sig. Ef hjón eru nærri hlutfallinu eitt á móti einu eru mestar líkur á að sambandið sé dauðadæmt og eigi stutt eftir. Það að það er ekki nóg að hafa eitt jákvætt á móti einu neikvæðu skýrist af því að það neikvæða hefur meira vægi. Leikarar kannast við það hvernig einn slæmur dómur drepur gleðina af fleiri jákvæðum. Þetta er innbyggt í okkur og hefur stuðlað að afkomu mannskyns en fyrir gott líf hvers einstaklings er betra að gleðjast. Það eru ekki nýjar fréttir. Predikarinn skrifaðir fyrir um 2000 árum: “Og ég lofaði gleðina því að ekkert betra er til fyrir manninn undir sólinni en að eta og drekka og vera glaður” (8:15).

Vonin getur bjargað heilsunni

Margir líta þannig á að það sé það sama að vera raunsær og vera svartsýnn. Það að horfa bjartsýnum augum á framtíðina sé hálfgerður kjánaskapur og draumórar. Það sé best að búast við hinu versta. Læknar höfðu hér áður fyrr miklar áhyggjur af því að vekja vonir hjá sjúklingum. Þeir hafa sem betur ferið áttað sig á því fyrir löngu að án vonar er ólíklegt að fólk geri það sem það þarf til að halda eða ná heilsu.

Ráð mitt er því einfalt eins og oftast: Vertu jákvæð/ur og bjartsýn/n 75% tímans og þér mun farnast vel!