Óvænt afrek miðaldra heila

Það hafa einhvern veginn öll aldurskeið fengið að njóta athygli og verið rannsökuð nema helst miður aldur. Heilar fóstra, barna og unglinga hafa verið rannsökuð í bak og fyrir, aldraðir nokkuð. En hinn miðaldra heili hefur ekki vakið spennu hjá rannsakendum. Kannski af því að við töldum okkur öll vita að þar gerðist lítið nema þá mishröð hnignun í takt við gránandi hár og slaknandi brjóst. 

Gróska hins miðaldra heila

Niðurstöður langtímarannsóknar sem fylgdi 6000 manns eftir í 40 ár og mældi reglulega hugræna getu, voru að þó að fólk verði hægara og gleymnara með aldrinum þá stóð fólk á aldrinum 40-60 ára sig betur en bæði yngra og eldra fólk í 4 af 6 mælingum á vitsmunum, sem sagt orðaforða, skilning, rökhugsun og rúmskynjun (sjá fyrir sér hvernig þrívíður hlutur liti út frá öðru sjónarhorni). Aðrar rannsóknir hafa sýnt að miðaldra heilinn notar bæði heilahvel við starf sitt og það gefur meiri kraft í hugræna vinnslu, fólk hefur dýpri skilning, sér stærri myndina betur.  Heimurinn verður ekki bara svartur og hvítur heldur greinir fólk fleiri blæbrigði, stjórnar betur tilfinningum sínum og er jákvæðara en það er á öðrum aldursstigum. Þetta eru auðvitað meðaltöl, einhverjir toppa 25 ára og aðrir 75 ára. Sumir ná aldrei miklum þroska, við þekkjum öll einhvern gamlan kjána, ekki satt?

Ekki hrörnun heldur streita

Mér sem konu sem hvorki telst vera ung né gömul, og passa því í þennan flokk „miðaldra“ þótti varið í að komast í bók sem rekur fjölda rannsókna, bæði langtíma, og þverskurðar auk megindlegra djúprannsókna sem sýna fram á að þvert á það sem allir halda, við hin miðaldra líka, er ýmislegt gott að gerast milli eyrnanna. Eins og alltaf tökum við frekar eftir því sem ekki í lagi. Ég verð miður mín þegar ég finn ekki bíllyklana enn eina ferðina eða hreinlega man ekki hvar ég lagði. Gleraugun enda í ísskápnum og  appelsínusafinn fer í skeið en lýsið í glasið. Þetta fékk mig til að halda að ég væri að verða stofnanamatur en var fullvissuð um af lækni að þetta væri ekki snemmtilkominn alzheimersjúkdómur, heldur tengt aldri og streitu.

Erum við að hætta of snemma að vinna?

Auk þess að rannsaka fólk á rannsóknarstofu hafa menn skoðað raunveruleg störf. Sumstaðar er fólk neytt til að hætta störfum við snemma. Þeir sem starfa við flug og flugumferðastjórn geta hætt störfum 55 ára því það var talið að þá væri heilanum farið að hraka. En rannsóknirnar í hermum sýndu að þau eldri tóku jafngóðar eða betri ákvarðanir en þau yngri.

Það að fólk man verr og er auðtruflaðra fer ekki framhjá því og fólk bregst við með því að útiloka truflanir. Þau slökkva á útvarpinu og skrifa hjá sér minnispunkta. Þetta er ekki galli heldur þvert á móti gerir vinnuna gegnsæja og praktískara t.d. ef annar þyrfti skyndilega að leysa af. Heilar eldri flugmanna og flugumferðastjóra er ögn hægari og aðeins lengur að læra nýja hluti en þeirra yngri. Á móti kemur að þeir áttu betur með að sjá heildarmynd, áttuðu sig betur á aðstæðum í þrívídd og átta sig á hvað skipti mestu máli.

Við lærum svo lengi sem við lifum

Ungt fólk er með ferskan og sprækan heila, það er með jafnmargar eða fleiri heilafrumur en þau sem eldri eru en taka samt stundum óskynsamlegar ákvarðanir, ekki satt? Það gæti starfað af því að þó að heilinn hafi svipað magn af heilasellum (gráa efnið) eru þær ekki slíðraðar (hvíta efnið), en hvíta efnið gerir hugræna vinnslu hraðari, skapar „breiðband“ í heilavefnum. Það er að koma í ljós að slíðrun er ekki lokið um og upp úr tvítugu eins og við héldum heldur er heilinn að bæta því við sig langt fram eftir ævinni einkum á svæðum sem tengjast því sem við sérhæfum okkur í. Mismunandi eftir fólki.

Þannig að við lærum svo lengi sem við lifum og þó að við týnum af okkur gleraugunum er okkur þessum miðaldra algerlega treystandi til að vinna vel og skara framúr á okkar sérfræðisviðum, hver svo sem þau eru. Unga fólkið er vissulega með fulla skynsemi og fljótt að læra en þau eldri hafa almennt séð betri dómgreind og dýpri eða víðari skilning. Vei fyrir því 😊

Byggt á „The secret life of the grown-up brain: the surprising talents of the middle-aged mind“ eftir B. Strauch.

Steinunn Eva Þórðardóttir, 2020