Þú efast kannski stundum um það en þú hefur í alvörunni marga styrkleika. Nánar tiltekið höfum við öll 24 persónustyrkleika eða mannkosti, samkvæmt VIA kenningunni, sem studd er fjölda rannsókna. Það hvernig þeir raðast og blandast er einstakt fyrir hvert okkar og það sem gerir okkur að okkur sjálfum. Þessir eiginleikar eru alþjóðlegir og vel metnir af ólíkum menningum og trúarhópum. Það sem er kallað auðkennis- eða aðalstyrkleiki er oftast sá sem kemur hæstur út úr prófi sem hægt er að taka frítt á viacharacter.org. Til eru margar fleiri leiðir til að finna styrkleika þína en prófið er góð byrjun ef þú hefur áhuga.
Þinn aðalstyrkleikur bætir lífið
Í ljós hefur komið að við erum langflest blind fyrir okkar eigin aðalstyrkleikum. Trúlega af því að fyrir okkur eru þeir svo sjálfsagðir. Hinsvegar þegar við uppgötvum þá er það bæði skemmtilegt, svolítið eins og að hitta gamlan vin. Líkt og púsl falli á sinn stað. Bara það að bera kennsl á sinn eða sína aðalstyrkleika hefur góð áhrif og margfaldar líkurnar á að við blómstrum í lífinu. Það eru jákvæð tengsl við alla undirþætti blómstrunar. Þetta þýðir fleiri góðar og jákvæðar tilfinningar hjá okkur, sjálfsmyndin er heilbrigðari, fólk upplifir frekar að lífið hafi tilgang, þrautseiga er meiri, við tökum frekar þátt í samfélaginu, náum frekar árangri og erum bjartsýnni (Niemiec, 2018). Ef fólk notar aðalstyrkleikann á nýjan hátt daglega, í viku verða áhrifin enn meiri, líkurnar á blómstrun verða 18 sinnum líklegri. Blómstrun má síðan viðhalda alla ævi með ástundun og áminningu.
Styrkleikarnir þínir eru þarna, þú þarft bara að leita að þeim
Fleiri kostir styrkleikjagreiningar
Styrkleikar gagnast ekki bara okkur sem einstaklingum. Hjónabönd styrkjast ef hjón eru meðvituð um og kunna að meta auðkennisstyrkleika hvors annars. Fólk verður ánægðara á og trúrra sínum vinnustað ef það fær að njóta og nota styrkleikana þar. Yfirmenn mættu taka til athugunar að þegar samskiptin á vinnustað eru með áherslu á styrkleika frekar en veikleika nær starfsfólkið mikið betri árangri í vinnu og starfsmannavelta minnkar. Þetta má eflaust yfirfæra í þjálfun, skóla og fleiri staði.
Þessi hefur eflaust ríka réttlætiskennd
Styrkleikarnir okkar birtast þegar þörf er á
Heppilegt er að nota styrkleika meðvitað til að hjálpa sér gegnum erfiðleika. Sá skapandi reynir kannski að finna frumlega lausn á því, t.d. í hugstormun, en það hentar skapandi fólki sérlega vel að kasta hugmyndum á milli í hóp. Áhugavert er að þegar virkilega reynir á kemur styrkleikinn oftast betur í ljós. Til dæmis sýnir foreldri sitt rétt andlit frekar þegar barnið er veikt heldur en þegar þau horfa saman á barnaefnið. Frumlega foreldrið gæti þá til dæmis prófað eitthvað nýtt sem bætir líðan þess. Foreldri með húmor slær á létta strengi og gerir lífið þannig ögn bærilegra en sú sem er sterkust í námsást leitar allra upplýsinga um veikindin.
Það er ástæða fyrir því hverjir fara í taugarnar á þér
Að lokum má benda á leið til að finna styrkleikana sína út frá því sem fer í taugarnar á okkur. Ef einhver á vinnustaðnum fer í þínar fínustu, er margt vitlausara en að gera lista yfir efstu og lægstu styrkleika þeirrar persónu. Líkur eru á að sá eða sú hafi þann styrkleika sem þú ert efst/ur í, mjög neðarlega og öfugt. Ef þú þolir ekki að hann gerir upp á milli fólks ert þú líklega með sanngirni sem auðkennisstyrkleika, en hann mælist lágur þar. Það er því aldeilis ekki rétt sem stundum er sagt að fólk pirri okkur því að það sé svo líkt okkur.
Skilningur kemur til bjargar
Bara það að átta sig á orsökunum getur dregið verulega úr ergelsinu. Skilningur eykur þolinmæðina. Það að átta sig líka á hvar styrkleikar þessa “pirrandi” einstaklings liggja getur ekki annað en bætt samskipti ykkar. Þar með batna líðan á vinnustaðnum. Niðurstaðan er að það að tileinka sér styrkleikanálgun gerir fyrst og fremst manni sjálfum gott. Nálgunin er líka framlag til bætts samfélags.
Eftirmáli
Styrkleikarnir 24 eru: Þakklæti, fyrirgefning, hógværð, hugrekki, heiðarleiki, þrautseigja, gætni, húmor, dómgreind, víðsýni, lærdómsást, forvitni, liðsheild/liðsmaður, forystuhæfni, sköpunargáfa, staðfesta, dugnaður, lífsorka, ást, góðmennska, félagsgreind, sanngirni, að kunna að meta fegurð og snilld, von og andlegt viðhorf. Merktu þá sem þér finnst vera þínir aðalstyrkleikar.
(Byggt að mestu á Character Strengths Interventions, a field guide for practitioners eftir Ryan M. Niemiec (2018) og vefsíðunni viacharacter.org)