Æfing í þakklæti

Allt sem þú gerir skiptir máli ekki síst það sem þú hugsar. Það er kannski ógnvekjandi tilhugsun því við upplifum oft að stjórna ekki alveg því sem gerist innra með okkur. Raunin er sú að það er hægt að stjórna hugsunum sínum, tilfinningar eru aðeins erfiðari en við getum samt valið hvernig við bregðumst við þeim.

Þakklætisæfingar

Það er hægt að gera margar sniðugar og einfaldar æfingar til að bæta okkur og stilla hugann. Ein sú albesta er þakklætisæfing. Þessi æfing eykur hamingju og sátt með lífið, dregur úr þunglyndis- og kvíðaeinkennum og eykur líkur á blómstrun. Hana má gera í huganum eða segja upphátt. Makar gætu t.d. sagt hvor öðrum í lok dags fyrir hvað þeir eru þakklátastir þann daginn. Róandi og uppbyggilegt koddahjal. Fyrir börn er þetta frábær leið til að koma fallegum hugsunum í kollinn á þeim fyrir svefninn og eiga gæðastund sem lyftir báðum aðilum upp andlega. Best er þó að gera hana skriflega. Bæði er það að skrifa hana áhrifaríkara en að segja eða hugsa og þá áttu þetta í áþreifanlegu formi. Gömul þakklætisæfing getur bjargað slæmum degi í framtíðinni, ef þú tekur stílabókina fram og lest yfir. Margföld áhrif sem sagt. (Barn gæti teiknað í sína þakklætisdagbók.)

Margir eru þakklátir fyrir kaffibollann á morgnanna. Mynd eftir Pablo Merchán Montes frá Unsplash

Það sem er þakkarvert

Æfingin felst í því að finna það þrennt sem þú ert mest þakklát/ur fyrir í dag/núna. Skrifa það niður, helst í sérstaka þakklætisdagbók (eða HappApp sem er frítt, íslenskt app) og leyfa sér að upplifa þakklætistilfinninguna á meðan. Þetta er jú æfing í þakklæti en ekki skriftaræfing. Þetta endurtekur þú daglega en mátt ekki nota sömu atriði nema þú sért einhverra hluta vegna sérlega þakklát/ur aftur seinna fyrir það sama.

Að kafa dýpra

Það eru mörg tilbrigði við þessa æfingu. Það má til að mynda bæta við hvaða þátt þú átt sjálf/ur í góðu atriðunum, það bætir sjálfsmyndina. Sumir velja að finna þrennt sem var skemmtilegt eða fyndið, það eykur gleði og þar með vellíðan. Ein leiðin til að nota þetta er þegar slæmu dagarnir koma og það er erfitt að vera þakklát/ur, eins og ef vatnið er tekið af, en þá er upplagt að velta fyrir sér hvað þarf til að við höfum rennandi vatn. Það eru ansi margir sem hafa lagt hönd á plóg og mikið af efni sem þarf til þess að við höfum þessa “sjálfsögðu” hluti.

Raunsæ jákvæðni

Þetta kann að hljóma eins og Pollíönnu-ismi sem er það að vera of eða óraunsætt jákvæð/ur. Hér erum við ekki að tala um að afneita því slæma heldur að leita markvisst að því góða sem raunverulega er til staðar. Það er því miður innbyggt í okkur að taka frekar eftir því neikvæða, (sbr. 3:1 hlutfallið) þannig að til að halda jafnvægi verðum við að “handvelja” að beina athygli líka að góðum hlutum. Á annars glötuðu rigningarsumri getum við verið raunverulega ánægð með ef það styttir upp einmitt í gönguferðinni eða glaðst yfir að eiga góða regnkápu. Fullkomlega raunsætt.

Síðan þegar sólin kemur loksins verðum við enn glaðari en á venjulegu sumri, ekki satt?

Mynd eftir Diego PH frá Unsplash